Meistarar annað sinn í röð

Mikkel Hansen átti stórleik fyrir danska liðið í gær.
Mikkel Hansen átti stórleik fyrir danska liðið í gær. AFP

Danir eru heimsmeistarar í handknattleik annað sinn í röð eftir 26:24-sigur á nágrönnum sínum í Svíþjóð í úrslitaleiknum í Egyptalandi í gær. Danir fögnuðu sínum fyrsta heimsmeistaratitli í sögunni með afgerandi sigri gegn Noregi á HM 2019.

Fáa hefði grunað fyrirfram að Svíar myndu fara alla leið í úrslit á mótinu enda heltist fjöldi leikmanna úr lestinni af ýmsum ástæðum stuttu áður en liðið hóf keppni í Egyptalandi. Engu að síður fóru þeir næstum alla leið en voru þó stöðvaðir að lokum af Dönum sem unnu alla níu leiki sína á mótinu og standa uppi sem verðskuldaðir sigurvegarar.

Leið þeirra í úrslitin var ekki klippt og skorin. Þeir höfðu betur gegn gestgjöfunum í Egytalandi í vítakeppni í fjórðungsúrslitum og lögðu svo Spánverja að velli í æsispennandi leik í undanúrslitunum. Markvörðurinn Niklas Landin var hetjan gegn Egyptum og Mikkel Hansen átti stórleik gegn Spánverjum. Það var því kannski við hæfi að þeir tveir fóru á kostum í úrslitaleiknum í gær.

Hansen var markahæstur allra með sjö mörk og Landin varði 14 af 37 skotum, þar af nokkur úr dauðafærum í lok leiks er Danir sigldu sigrinum í höfn. Nikolaj Nielsen skoraði fimm mörk og Jacob Holm fjögur fyrir Dani. Í sænska liðinu var Hampus Wanne markahæstur með fimm mörk og Albin Lagergren næstur með fjögur.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert