Magnaður sigur hjá Martin og Valencia

Martin Hermannsson í leik með Valencia í Euroleague.
Martin Hermannsson í leik með Valencia í Euroleague. AFP

Martin Hermannsson var í stóru hlutverki hjá Valencia í kvöld þegar spænska liðið lagði næstefsta lið Euroleague, CSKA frá Moskvu, í æsispennandi og tvíframlengdum leik á heimavelli sínum, 105:103.

Martin var í eldlínunni undir lok fyrri framlengingarinnar en hann tók tvö vítaskot þegar sex sekúndur voru eftir og lið hans stigi undir, 94:95. Martin hitti úr seinna skotinu og jafnaði, 95:95, og þriggja stiga skot hjá Mike James, leikmanni CSKA, geigaði. 

Þar með var framlengt aftur og þá knúði Valencia fram sigur með því að skora fjögur síðustu stig leiksins. Martin hefði getað innsiglað sigurinn sex sekúndum fyrir leikslok. Skot hans geigaði en James hitti heldur ekki körfuna þegar hann reyndi aftur þriggja stiga skot fyrir CSKA á síðustu sekúndunni.

Martin var mjög atkvæðamikill í leiknum en hann var þriðji stigahæsti leikmaður Valencia með 17 stig og tók auk þess þrjú fráköst og átti tvær stoðsendingar. Hann spilaði í 29 mínútur.

Valencia er um miðja deildina, er í tíunda sæti af átján liðum með tólf sigra í 24 leikjum. CSKA tapaði aðeins í áttunda skipti í 24 leikjum í vetur en liðið er í öðru sæti deildarinnar á eftir Barcelona.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka