Njarðvík og Stjarnan mættust í áttundu umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Dominos-deildinni, í Njarðtaksgryfjunni í Reykjanesbæ og hafði Stjarnan betur 96:88.
Það voru Stjörnumenn sem fögnuðu glæstum sigri gegn lánlausum Njarðvíkingum í kvöld 96:88 þegar liðin mættust í Njarðvík í Dominos-deild karla í körfuknattleik. Sigurinn var sanngjarn þar sem heimamenn voru nokkuð frá sínu besta. Í hálfleik leiddu gestirnir með 9 stigum og maðurinn bak við sigur gestanna án nokkurs vafa Ægir Þór Steinarsson. Kappinn skoraði þegar á þurfti að halda og sendi stoðsendingar þess á milli, 19 stig og 11 stoðsendingar frá kappanum þetta kvöldið. Hjá Njarðvíkingum var Rodney Glasgow þeirra skástur en aðrir mega muna sinn fífil fegurri í íþróttinni.
Bæði lið voru að koma frá tapleikjum í síðustu umferð og því mikið í húfi. Allt frá fyrstu mínútu fannst manni Stjörnumenn töluvert líklegri til afreka. Þrekið og áræðni þeirra í gegnum leikinn var töluvert meira enn frá heimamönnum. Jafnt var á með liðunum allt þangað til Ægir Þór fyrrnefndur tók til sinna ráða og lyfti grettistaki í leik sinna manna.
Njarðvíkingar áttu fá svör við hraða kappans og hægt enn örugglega byggðu gestirnir upp forystu. Það skásta frá Njarðvíkingum þetta kvöldið var kannski sú staðreynd að þeir komu sér alltaf aftur inn í leikinn og eiga svo sem alveg möguleika á að komast upp með ákveðið rán. En það var ekki þetta kvöldið fyrir þá. Heimamenn virkuðu nokkuð þreyttir og óákveðnir í sínum aðgerðum þetta kvöldið. Tilviljanir virtust á stundum ráða för hvernig sóknir þeirra enduðu. En stóra vandamálið hins vegar var varnarleikurinn þar sem þeir fá á sig 96 stig og það getur varla verið ásættanlegt fyrir heimamenn. Í það minnsta finnst manni eitthvað meira búa í þessu Njarðvíkurliði en þeir hafa verið að sýna.
Antonio Hester sem þeir fengu nýverið hefur nú fengið eldskírn í deildinni í grænum búning en þyrfti að komast í betra úthaldslegt form. Gríðarlega öflugur leikmaður sem Njarðvíkingar þurfa að fá 100% á hverju kvöldi.
En þegar öllu er á botninn hvolft þá eru Stjörnumenn einfaldlega sem stendur skrefi eða skrefum á undan Njarðvíkingum og sigur áttu þeir fyllilega skilið. Stjörnumenn fylgja því Keflvíkingum sem skugginn á toppi deildarinnar en Njarðvíkingar hafa nú tapað tveim í röð og næsti leikur þeirra gegn Þórsurum á Akureyri.
Stjarnan er með 12 stig eins og Keflavík á toppi deildarinnar en Njarðvík er með 8 stig.
Gangur leiksins: 8:7, 15:16, 21:24, 25:28, 33:35, 35:37, 41:43, 46:55, 50:59, 52:66, 60:73, 73:77, 75:81, 75:84, 85:90, 88:96.
Njarðvík: Rodney Glasgow Jr. 18/4 fráköst, Antonio Hester 18/11 fráköst, Logi Gunnarsson 18, Jón Arnór Sverrisson 15/7 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Helgi Jónsson 8, Mario Matasovic 7/5 fráköst/3 varin skot, Veigar Páll Alexandersson 4.
Fráköst: 19 í vörn, 13 í sókn.
Stjarnan: Alexander Lindqvist 25/4 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 21/11 stoðsendingar, Hlynur Elías Bæringsson 14/9 fráköst, Gunnar Ólafsson 12/5 fráköst, Austin James Brodeur 10/9 fráköst, Mirza Sarajlija 6/6 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 6, Dúi Þór Jónsson 2.
Fráköst: 26 í vörn, 11 í sókn.
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Rögnvaldur Hreiðarsson, Sigurður Jónsson.