Sterkt lið Grikklands reyndist númeri of stórt fyrir lið Íslands þegar liðin mættust í undankeppni EM kvenna í körfuknattleik í dag en leikið var í Ljubljana í Slóveníu.
Íslenska liðið lék vel lengst af í fyrri hálfleik og leikurinn var í járnum fram í annan leikhluta. Að honum loknum var staðan 43:31 eftir góða rispu Grikkja í öðrum leikhluta.
Þær grísku stungu af í síðari hálfleik og unnu stórsigur 95:58. Sara Rún Hinriksdóttir var stigahæst með 17 stig en gaf einnig 5 stoðsendingar. Hildur Kjartansdóttir skoraði 13 stig og tók 9 fráköst.
Ísland mætir Slóveníu á sama stað á laugardaginn.
Stig Íslands: Sara Rún Hinriksdóttir 17, Hildur Björg Kjartansdóttir 13, Bríet Sif Hinriksdóttir 11, Þóra Kristín Jónsdóttir 10, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 3, Hallveig Jónsdóttir 2, Lovísa Björt Henningsdóttir 2.