Við hefðum viljað sjá afléttingu

Hannes S. Jónsson í góðum félagsskap.
Hannes S. Jónsson í góðum félagsskap. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Auðvitað vill maður alltaf að það séu áhorfendur á leikjunum hjá okkur og maður er svekktur yfir því að það sé áhorfendabann,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, í samtali við mbl.is. 

Áhorf­end­ur verða ekki heim­ilaðir á íþróttaviðburðum hér­lend­is til 3. mars en nýjar sóttvarnareglur taka gildi eftir helgi. Á meðan áhorfendabann verður áfram í gildi í íþróttahúsum mega t.a.m. 150 manns sækja leikhús. 

„Áhorfendur eru mikilvægar tekjur fyrir íþróttafélögin og auðvitað er það svekkjandi en það sem skiptir máli er að fara eftir þeim sóttvarnaaðgerðum sem eru í gildi í dag. Við getum verið með áhorfendum í leikhúsum og í kringum listirnar. Það er líka hægt að gera það í íþróttahúsum og það er hægt að merkja stúkur og viðhalda þessum reglum.

Það er frábært að hafa allar íþróttir opnar en stuðningsmennirnir skipta miklu máli og setja mikinn svip á leikinn. Við hefðum viljað sjá einhverja afléttingu á því fyrir félögin og stuðningsmennina,“ sagði Hannes. 

Hann bendir á að reglurnar hérlendis séu vægari en víðs vegar í Evrópu, en á sama tíma treystir hann að allir viðkomandi fari eftir settum reglum. 

Treystir stuðningsmönnum

„Ég er núna í Slóveníu með kvennalandsliðinu og hér eru alls konar reglur, m.a. áhorfendabann. Við erum með slakar reglur heima miðað við ástandið í Evrópu, sem er að sjálfsögðu vegna þess að ástandið er betra heima.

Ég treysti því samt að félögin og stuðningsmennirnir virði þær sóttvarnareglur sem eru í gildi. Ég er viss um að stuðningsmennirnir, félögin og allir munu fara í einu og öllu eftir þeim reglum sem væru settar. Íþróttahreyfingin hefur farið eftir ströngum sóttvarnareglum í nokkra mánuði.“

Hannes er bjartsýnn á að stuðningsmenn fái að mæta í íþróttahús fyrr en varir. „Það er það sem skiptir meira máli og ég hef trú á að ef það gengur vel í febrúar verður opnað fyrir áhorfendur aftur í mars, ég hef fulla trú á því. Á sama tíma skiljum við þá aðstöðu sem yfirvöld eru í varðandi þennan faraldur því við viljum ekki missa þetta upp aftur. Maður er svekktur en á sama tíma ber maður virðingu fyrir því sem yfirvöld ákveða,“ sagði Hannes. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert