Grindvíkingurinn sterkur í stórsigri

Jón Axel Guðmundsson ogTryggvi Snær Hlinason áttu fína leiki.
Jón Axel Guðmundsson ogTryggvi Snær Hlinason áttu fína leiki. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsliðsmaðurinn Jón Axel Guðmundsson átti fínan leik fyrir Fraport Skyliners er liðið vann öruggan útisigur á Rasta Vechta í efstu deild Þýskalands í körfubolta í dag. 

Jón Axel lék í 27 mínútur og skoraði á þeim 12 stig, tók fjögur fráköst og gaf eina stoðsendingu. Þá fékk hann einnig fjórar villur dæmdar á sig. 

Fraport er í níunda sæti deildarinnar með sjö sigra og níu töp í sextán leikjum. 

Á Spáni skoraði Tryggvi Snær Hlinason átta stig og tók sjö fráköst fyrir Zaragoza í 83:70-sigri á Obradoiro á heimavelli. Tryggvi lék í rúmar 18 mínútur. 

Zaragoza er í tíunda sæti með níu sigra og þrettán töp í 22 leikjum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert