Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta mátti þola 59:96-skell gegn Slóveníu í undankeppni EM 2021 í dag en leikið var í Slóveníu. Sigur Slóvena var aldrei í hættu og var staðan í hálfleik 44:25 og heimakonur bættu í forskotið jafnt og þétt út allan leikinn.
Slóvenía er eitt besta lið Evrópu í körfubolta í kvennaflokki og því ljóst að róðurinn yrði þungur fyrir íslenska liðið. Hann léttist ekki þegar Sara Rún Hinriksdóttir, besti leikmaður liðsins í síðustu leikjum, fór meidd af velli strax í fyrsta leikhluta.
Í hennar fjarveru lék Hildur Björg Kjartansdóttir afar vel og skoraði 25 stig og tók níu fráköst. Þóra Kristín Jónsdóttir gerði 17 stig og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði sex stig.
Ísland tapaði öllum sex leikjum sínum í riðlinum og endar því í neðsta sæti. Slóvenía hafnaði í efsta sæti riðilsins og fer á Evrópumótið.