Valencia hafði betur gegn Real Betis, 89:81, í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld. Betis byrjaði mun betur og náði mest tíu stiga forskoti í fyrsta leikhlutanum og var staðan eftir hann 22:12.
Valencia tók hins vegar við sér og var yfir í hálfleik, 38:37. Valencia var svo sterkari aðilinn í seinni hálfleik og vann að lokum góðan sigur.
Martin Hermannsson skoraði 13 stig fyrir Valencia, gaf fjórar stoðsendingar og tók tvö fráköst á rétt tæpum 22 mínútum spiluðum.
Valencia er í fjórða sæti deildarinnar með 16 sigra og 6 töp í 22 leikjum. Þá er liðið í tíunda sæti Evrópudeildarinnar, sterkustu keppni álfunnar, með 12 sigra og 12 töp.