Þremur leikjum var að ljúka rétt í þessu í NBA-deildinni í körfuknattleik.
Utah Jazz vann enn einn sigurinn þegar liðið vann átta stiga sigur, 103:95, gegn Indiana Pacers.
Donovan Mitchell reyndist Utah drjúgur einu sinni sem áður og náði tvöfaldri tvennu. Hann var stigahæstur með 27 stig, gaf 11 stoðsendingar og tók níu fráköst.
Utah er nú búið að vinna 19 af 24 leikjum sínum.
Naumur sigur Miami
Miami Heat vann nauman 109:103 sigur gegn New York Knicks.
Leikurinn var lengst af í járnum en eftir að New York náði að minnka muninn í 101:99 skoraði Miami næstu sjö stig og létu ekki forystuna af hendi eftir það.
Bam Adebayo var öflugur í liði Miami og náði tvöfaldri tvennu. Skoraði hann 24 stig, tók 11 fráköst og gaf fimm stoðsendingar.
Jimmy Butler samherji hans náði sömuleiðis tvöfaldri tvennu, en hann skoraði 17 stig, tók 10 fráköst og gaf níu stoðsendingar.
Julius Randle í liði New York gerði slíkt hið saman, var með tvöfalda tvennu. Hann skoraði 26 stig og var stigahæstu í leiknum, auk þess að taka 13 fráköst og gefa sjö stoðsendingar.
Auðvelt hjá Charlotte
Charlotte Hornets vann svo sannfærandi 119:97 sigur gegn lánlausum Washington Wizards.
Stigahæstur hjá Charlotte var Terry Rozier með 26 stig og Gordon Hayward var skammt undan með 25 stig. Þá náði Miles Bridges tvöfaldri tvennu en hann skoraði 11 stig og tók 14 fráköst.
Bradley Beal hjá Washington var stigahæstur í leiknum með 31 stig. Þá náði Russell Westbrook tvöfaldri tvennu, með 12 stig og 11 fráköst.
Washington hefur aðeins unnið fimm leiki af 20 á tímabilinu.