Öruggt hjá Keflavík gegn Tindastóli

Calvin Burks Jr. í baráttunni við Jaka Brodnik í leiknum …
Calvin Burks Jr. í baráttunni við Jaka Brodnik í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Skúli Sigurðsson

Keflvíkingar fóru með sigur af hólmi í kvöld gegn lánlausum Tindastólsmönnum þegar liðin mættust í Dominos-deild karla í körfuknattleik.

Heimamenn voru á toppi deildarinnar fyrir leik og Tindastóll hafði verið að spila undir getu að margra mati þennan vetur.

Keflvíkingar voru hins vegar töluvert betri allt kvöldið og eftir að hafa leitt með 9 stigum í hálfleik stigu þeir hressilega á bensíngöfina og juku muninn í 22 stig í undir lok þriðja leikhluta. Fjórði leikhluti var svo í raun formsatriði að klára og unnu Keflvíkingar með 107 stigum gegn 81. 

Það sem af er vetri hefur það verið Keflavíkurliðið sem hefur verið hvað stöðugast ef frá er tekinn leikurinn gegn Stjörnunni þar sem þeir töpuðu illa. Liðið er gríðarlega vel þjálfað og samstillt. Sú staðreynd að liðið er nánast óbreytt frá síðasta tímabili skiptir öllu fyrir þá.

Á meðan önnur lið eru enn að slípa sig saman og reyna að finna sitt auðkenni virðast Keflvíkingar vera nokkuð fullmótaðir í sínum leik. Hvort þeir séu að toppa á vitlausum tíma á svo eftir að koma í ljós. Fyrrum miðherji KR-inga, Fannar Ólafsson, hefur ár eftir ár minnst rækilega á það að enginn vinnur titil í október, nóvember, eða á þeim stað sem deildin er þessa dagana ef ekki hefði verið fyrir Covid. Hvort þetta eigi við Keflavík vill undirritaður ekki kvitta undir og er enn á því að Keflavík er það lið sem þurfi að fara í gegnum til að taka titilinn í júní eða svo.

Keflvíkingar frumsýndu nýjan leikmann í kvöld, Max Montana. Kauði lítur út fyrir að vera brimbrettadrengur beint úr iðrum Kaliforníu en sá kann aðeins fyrir sér í körfuknattleik og styrkir hóp Keflvíkinga enn frekar.

Sem fyrr þá hefur verið tal um að Tindastóll séu að spila undir getu og það er alveg óhætt að segja það. Hópurinn sem þar spilar er gríðarlega sterkur þó svo að þetta kvöldi hafi vantað Antanas Udras sem er meiddur á hendi. 

Sóknarleikur liðsins á köflum þetta kvöldið var helst til óútreiknanlegur og illa stýrt. Hlutverk milli Nick Tomsick og Péturs Rúnars Birgissonar innan liðsins virðist ekki vera alveg á hreinu. 

Ætla mætti að Tindastólsmenn myndu vilja hafa Pétur Rúnar við stýrið á leik liðsins megnið af leiktímanum á meðan Tomsick leysti af stöðu skotbakvarðar, þar sem hann er bestur.  Hvað um það, þetta Tindastólslið á eftir að finna sína fjöl og bíta frá sér þegar þeir finna sitt auðkenni þetta tímabilið. 

Keflavík - Tindastóll 107:81

Blue-höllin, Dominos deild karla, 7. febrúar 2021.

Gangur leiksins:: 11:0, 13:10, 21:16, 23:22, 30:22, 36:30, 41:34, 48:39, 51:41, 64:43, 70:48, 76:56, 87:59, 93:67, 103:73, 107:81.

Keflavík: Dominykas Milka 23/15 fráköst, Calvin Burks Jr. 21/9 fráköst, Deane Williams 16/9 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 16/4 fráköst/14 stoðsendingar, Max Montana 13, Valur Orri Valsson 7, Reggie Dupree 5, Ágúst Orrason 3, Arnór Sveinsson 3.

Fráköst: 29 í vörn, 14 í sókn.

Tindastóll: Jaka Brodnik 20/5 fráköst, Shawn Derrick Glover 15/5 fráköst, Nikolas Tomsick 14/4 fráköst/5 stoðsendingar, Helgi Rafn Viggósson 10/10 fráköst, Viðar Ágústsson 9/5 fráköst, Axel Kárason 4, Þráinn Svan Gíslason 4, Pétur Rúnar Birgisson 2/6 stoðsendingar, Örvar Freyr Harðarson 2, Hannes Ingi Másson 1.

Fráköst: 24 í vörn, 11 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson, Gunnlaugur Briem.

Áhorfendur: 50

Keflavík 107:81 Tindastóll opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert