KR-ingar gerðu góða ferð til Grindavíkur í kvöld og unnu þar sigur á heimamönnum, 95:83, í níundu umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Dominos-deildinni.
KR er þá komið með 10 stig, fór upp í efri hluta deildarinnar og náði Grindvíkingum að stigum.
KR-ingar byrjuðu betur og voru yfir eftir fyrsta leikhluta, 21:13. Grindvíkingar náðu forystunni um tíma í öðrum leikhluta en KR var samt yfir í hálfleik, 44:41.
KR var með fimm til tíu stiga forskot allan þriðja leikhlutann en Kristinn Pálsson skoraði mikilvæga þriggja stiga körfu fyrir Grindvíkinga í lokin og staðan var 66:62 fyrir KR að honum loknum.
Aftur náðu KR-ingar að auka forskotið og voru tíu stigum yfir, 84:74, þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir og Matthías Orri Sigurðarson kom þeim aftur í tíu stiga forskot, 88:78, níutíu sekúndum fyrir leikslok. Það var of mikið fyrir Grindvíkinga sem áttu ekki möguleika á að ógna KR á lokamínútu leiksins.
Tylor Sabin og Matthías Orri voru í aðalhlutverkum hjá KR-ingum en Kristinn Pálsson var stigahæstur Grindvíkinga.