Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik er fast á flugvellinum í Frankfurt í Þýskalandi.
Þetta staðfesti Hannes. S. Jónsson, formaður KKÍ, í samtali við mbl.is í dag en íslenska liðið lék gegn Grikklandi og Slóveníu í lokaleikjum sínum í undankeppni EM 2021 í Ljublijana í Slóveníu um helgina.
Íslenska liðið átti að ferðast frá Þýskalandi til Íslands í dag, með millilendingu í Kaupmannahöfn, en Þjóðverjarnir voru ekki tilbúnir að hleypa liðinu til Danmerkur.
„Reglurnar í Danmörku voru þannig að þú þurftir að hafa gengist undir neikvætt kórónuveirupróf á síðasta sólahringnum til þess að mega koma inn í landið,“ sagði Hannes í samtali við mbl.is í dag.
„Það er nýbúið að breyta reglunum og þetta á því ekki að skipta neinu máli. Eins þá vorum við á leiðinni í tenguflug og við ætluðum okkur aldrei að stoppa neitt í Danmörku.
„Þeir hjá Lufthansa eru mjög fastir fyrir, eins og Þjóðverjinn er, og þeir vilja ekki hlusta á neitt sem við höfum að segja,“ bætti Hannes við.
Þá vonast formaðurinn til þess að íslenska liðið skili sér heim á morgun.
„Við erum heppin að hafa Icelandair og Soffíu Helgadóttur hjá VITA-ferðum með okkur í liði og Soffía er bara í því að bjarga okkur daginn út og inn.
Það eru allir svekktir að komast ekki heim í dag en það er ekkert annað að gera en að taka því þótt það sé erfitt. Við erum ekki eina liðið sem er í vandræðum eða hefur lent í vandræðum á þessum tímum.
Við erum jákvæð og brosum því við munum komast heim á endanum,“ bætti Hannes við í samtali við mbl.is.