Sjöundi sigur Stjörnumanna

Gunnar Ólafsson Stjörnumaður sækir að körfu ÍR-inga þar sem Zvonko …
Gunnar Ólafsson Stjörnumaður sækir að körfu ÍR-inga þar sem Zvonko Buljan er til varnar. mbl.is/Árni Sæberg

Stjarnan vann í kvöld sinn sjöunda sigur í fyrstu níu umferðum úrvalsdeildar karla í körfuknattleik með því að leggja ÍR-inga að velli í Garðabæ, 95:87.

Stjarnan er með 14 stig í öðru sæti, tveimur stigum á eftir toppliði Keflvíkinga og tveimur á undan Þór úr Þorlákshöfn. ÍR-ingar eru þar á eftir með 10 stig eins og Grindavík og KR.

Eftir sveiflukenndan fyrsta leikhluta breytti Stjarnan stöðunni úr 14:14 í 23:15 með góðum endaspretti. Í öðrum leikhluta náðu Garðbæingar mest tólf stiga forystu og voru yfir í hálfleik, 46:39.

Stjörnumenn keyrðu áfram af sama krafti og voru komnir í 63:45 um miðjan þriðja leikhluta. ÍR minnkaði forskotið mest í þrettán stig en Stjarnan var 74:58 yfir þegar leikhlutanum lauk.

ÍR-ingar gáfust ekki upp og minnkuðu muninn í tíu stig í fjórða leikhluta en fóru illa með góð tækifæri til að saxa enn frekar á forskot Stjörnumanna. Þeir héldu baráttunni áfram og minnkuðu muninn loks í 84:78 þegar þrjár og hálf mínúta voru eftir.

Þriggja stiga karfa frá Arnþóri Frey Guðmundssyni í næstu sókn, 87:78, sá þó til þess að undirtökin væru áfram Stjörnunnar. Þriggja stiga karfa frá Mirza Sarajlija kom Stjörnunni í 92:82, eftir að ÍR hafði klúðrað upplögðu færi til að minnka muninn enn frekar. Breiðhyltingar náðu þó að minnka muninn í fimm stig, 92:87, þegar sjö sekúndur voru eftir en Sarajlija innsiglaði sigurinn í blálokin með þriggja stiga körfu.

Gangur leiksins: 4:2, 12:9, 16:14, 23:16, 33:22, 36:29, 44:36, 46:39, 56:43, 63:50, 67:53, 74:58, 79:69, 84:73, 89:82, 95:87.

Stjarnan: Hlynur Elías Bæringsson 17, Alexander Lindqvist 16/4 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 15/6 fráköst/7 stoðsendingar, Mirza Sarajlija 14/8 fráköst/8 stoðsendingar, Gunnar Ólafsson 12, Austin James Brodeur 8/6 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 6, Dúi Þór Jónsson 5, Tómas Þórður Hilmarsson 2.

Fráköst: 22 í vörn, 11 í sókn.

ÍR: Collin Anthony Pryor 22/5 fráköst, Everage Lee Richardson 19/6 fráköst/10 stoðsendingar, Evan Christopher Singletary 18/5 stolnir, Danero Thomas 10/4 fráköst, Zvonko Buljan 7/7 fráköst, Sigvaldi Eggertsson 6, Sæþór Elmar Kristjánsson 5.

Fráköst: 18 í vörn, 6 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Jóhannes Páll Friðriksson, Friðrik Árnason.

Áhorfendur: 50

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert