Körfuknattleiksfólkið Jón Arnór Sverrisson og Kamilla Sól Viktorsdóttir verða áfram í röðum Njarðvíkinga næstu tvö árin en þau hafa bæði skrifað undir tveggja ára samning við félagið.
Jón Arnór er 22 ára gamall bakvörður sem er í stóru hlutverki í karlaliði Njarðvíkur en hann hefur skorað 10,6 stig, tekið 4,4 fráköst og átt 4,5 stoðsendingar að meðaltali í leik í vetur. Hann lék fyrst með meistaraflokki Njarðvíkur tímabilið 2014-15 og hefur leikið með liðinu síðan, að undanskildu tímabilinu 2017-18 þegar hann lék lengst af með Hamri en einnig með Keflavík.
Kamilla Sól er nýkomin í raðir Njarðvíkinga frá Keflavík en hún er tvítugur bakvörður sem hefur komið við sögu í sex leikjum í úrvalsdeild kvenna, Dominos-deildinni, í vetur. Hún lék áður eitt tímabil með Njarðvík, 2018-19, og fer nú í toppbaráttu með liðinu í 1. deildinni.