Svakalegur árekstur samherja og leik hætt (myndskeið)

Einn dómara leiksins ræðir við forráðamenn liðanna eftir atvikið.
Einn dómara leiksins ræðir við forráðamenn liðanna eftir atvikið. Ljósmynd/@sbl_herr

Leik Umeå og Norrköping í sænsku úrvalsdeild karla í körfuknattleik var hætt í kvöld eftir að alvarlegt atvik átti sér stað í fjórða leikhluta. 

Samherjarnir Kamau Stokes og Phill Carr rákust þá harkalega saman með þeim afleiðingum að báðir lágu óvígir eftir á gólfinu. Leikurinn var stöðvaður á meðan hugað var að þeim og honum síðan hætt skömmu síðar. Staðan var 78:65 fyrir Norrköping og það látið standa sem lokatölur en sex mínútur voru eftir af leiknum.

Atvikið má sjá á myndskeiðinu og rétt að taka fram að rangur leikmaður var nefndur til sögunnar í færslunni á Twitter:

Á Twitter-síðu Norrköping segir að báðir leikmennirnir séu með meðvitund og hafi verið fluttir á sjúkrahús til rannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert