Súrrealískt að dekka átrúnaðargoðið sitt

Styrmir Snær Þrastarson, til hægri, hefur slegið í gegn á …
Styrmir Snær Þrastarson, til hægri, hefur slegið í gegn á tímabilinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hinn 19 ára gamli Styrmir Snær Þrastarson er sá leikmaður sem hefur komið einna mest á óvart í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Dominos-deildinni, það sem af er tímabili.

Styrmir, sem er alinn upp í Þorlákshöfn, leikur með Þórsurum þar á bæ og hefur skorað 12 stig að meðaltali í deildinni í vetur í níu leikjum, tekið fimm fráköst og gefið fjórar stoðsendingar.

Þá hafa Þórsarar einnig komið mikið á óvart á tímabilinu til þessa en liðið er í þriðja sæti deildarinnar með 12 stig eftir fyrstu níu umferðirnar.

„Við ætluðum okkur að gera góða hluti á þessu tímabili og ég myndi þess vegna segja að við værum á þeim stað í dag sem við ætluðum okkur að vera á í upphafi leiktíðarinnar,“ sagði Styrmir Snær í samtali við Morgunblaðið.

„Okkur var ekki spáð svona góðu gengi af þessum helstu sérfræðingum og spámönnum en við vitum sjálfir best hvað við getum. Við ætluðum okkur að vera að berjast við toppinn og það hefur gengið eftir enn sem komið er. Við græddum á því að þegar hlé var gert á keppni strax í upphafi móts héldum við þeim leikmönnum sem höfðu komið til félagsins fyrir tímabilið. Við sendum ekki útlendingana heim eins og önnur lið gerðu og við höfum því fengið góðan tíma til þess að slípa okkur saman.

Umgjörðin í kringum körfuna í Þorlákshöfn hefur líka alltaf verið geggjuð og maður er búinn að vera í hálfgerðri mótun hérna frá því Balli Ragg [Baldur Ragnarsson] tók mann ungan að árum í afreks- og styrktarþjálfun. Hann á mjög stóran þátt í að móta mig og aðra unga leikmenn hérna og það er frábært fyrir unga krakka að alast upp í Þorlákshöfn, sérstaklega í kringum körfuna,“ bætti Styrmir við en hann er 204 sentimetra hár framherji.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert