„Ég er ánægður með seigluna í okkur og að halda haus þegar þeir virtust vera að ná okkur. Við tókum öll þeirra högg beint á kinnina, settum kassann út og héldum áfram. Á endanum fannst mér þetta nokkuð öruggt þó að það hafi verið hætta við og við þegar þeir komust á sín skrið. Yfir það heila er ég mjög ánægður með baráttuna, vörnina og leik okkar svona heildstætt.“
Þetta sagði Matthías Orri Sigurðarson, leikmaður KR í körfuknattleik, í samtali við mbl.is eftir góðan 100:91 sigur liðsins gegn Stjörnunni í Dominos-deildinni í kvöld.
Eftir frábæra byrjun á leiknum þar sem KR-ingar leiddu með 16 stigum í hálfleik komu Stjörnumenn sér vel inn í leikinn með því að taka yfir þriðja leikhluta og minnka muninn niður í aðeins þrjú stig. Spurður um hverju KR-ingar hafi breytt eftir slæman þriðja leikhluta sagði Matthías Orri:
„Við fórum að hlaupa meira. Í þriðja leikhluta fórum við allt of mikið að spila fyrir framan þeirra vörn. Þeir eru mjög góðir í því þannig að við reyndum að brjóta leikinn aðeins meira upp, keyra aðeins í bakið á þeim, spila einfaldari leikkerfi.
Aðeins að einfalda þetta, reyna að finna stóru mennina þeirra, láta þá skipta. Þeir eiga erfitt með að höndla okkur bakverðina þarna fyrir utan. Svo vildum við fara aðeins meira í það að keyra inn í teiginn og finna sendinguna út. Það sást sérstaklega þarna seint í seinni hálfleik þegar Brylli setti þrjá eða fjóra þrista, þá fórum við langleiðina með að klára þetta.“
Hann sagði liðið enn vera að ganga í gegnum breytingar og næstu vikur yrðu liðinu afar mikilvægar. „Næstu tvær til þrjár vikur eru rosalega mikilvægar fyrir okkur. Það vita það allir að við byrjuðum svolítið seint. Við erum að kollvarpa kerfinu okkar og erum að breyta algjörlega til. Það hefur tekið smá tíma og það er að ganga töluvert betur núna.
Við þurfum að halda áfram að koma Brandon [Joseph Nazione] inn í leikinn. Hann var frábær í dag og góður í síðasta leik líka. Það býr svolítið mikið í honum. Við þurfum að halda áfram að láta okkur líða vel í þessu kerfi. Það er svolítil ringulreið í kerfinu en það eru ákveðnar reglur inni í brjálæðinu þannig að við þurfum að læra að halda okkur við þær reglur því ef við gerum það ekki þá gerist svona eins og í þriðja leikhluta þar sem við vorum mjög staðir og lélegir.“
Að lokum sagði Matthías Orri markmiðin ávallt skýr í herbúðum KR. „Ég held að við þurfum að nota næstu tvær til þrjár vikurnar í að halda áfram þessu ferli sem við erum í. Það tekur einhvern tíma. Við vitum það og erum þolinmóðir. Markmiðin okkar eru alltaf þau sömu, það er bara að vera í ágætisstöðu fyrir úrslitakeppnina og keyra á titilinn þá. Það er alltaf þannig hérna í KR.“