KR vann sterkan 100:91 sigur gegn Stjörnunni í Dominos-deildinni í körfuknattleik karla í DHL-höllinni í Vesturbænum í kvöld.
KR-ingar mættu ákveðnir til leiks og voru fljótt komnir með 11:2 forystu. Þeir voru ekkert á því að gefa hana eftir og bættu raunar bara í eftir að hafa tekið leikhlé í stöðunni 21:13, skoruðu enda næstu 10 stig og voru með 18 stiga forystu að loknum fyrsta leikhluta, 31:13.
Stjörnumenn tóku betur við sér í öðrum leikhluta og var talsvert meira jafnræði með liðunum, en þó náðu Stjörnumenn aðeins að minnka muninn um tvö stig þegar á hólminn var komið og fóru KR-ingar því með 16 stiga forystu í hálfleik.
Stigamuninn mátti einna helst skrifa á það að Stjörnumönnum gekk bölvanlega að hitta úr þriggja stiga skotum sínum í fyrri hálfleiknum með aðeins 17 prósent nýtingu.
Allt annað var að sjá til Stjörnumanna í þriðja leikhluta og munaði þar mest um frábæran varnarleik, fjölda sóknarfrákasta auk þess sem Garðbæingarnir fóru loks að hitta úr þriggja stiga skotum sínum. Þar af setti Arnþór Freyr Guðmundsson þrjú slík niður. Stjörnumenn tóku enda þriðja leikhlutann alveg yfir og náðu að minnka muninn í þrjú stig, 73:70.
Því var von á æsispennandi fjórða og síðasta leikhluta. KR-ingar byrjuðu leikhlutann af miklum krafti og náðu fljótt níu stiga forystu, 86:77, en Stjörnumenn gáfust ekki upp og minnkuðu muninn í fjögur stig, 88:84. KR-ingar skoruðu hins vegar næstu átta stig og komust þar með í 12 stiga forystu. KR-ingar litu ekki til baka eftir það og unnu að lokum góðan níu stiga sigur.
Einu sinni sem áður var Ty Sabin stigahæstur KR-inga með 20 stig.
Í liði Stjörnumanna var Hlynur Bæringsson stigahæstur með 18 stig, en hann náði tvöfaldri tvennu þar sem hann tók sömuleiðis 11 fráköst. Samherji hans, Alexander Lindqvist, náði sömuleiðis tvöfaldri tvennu en hann skoraði 16 stig og tók 11 fráköst.
KR-ingar fara með sigrinum upp í 4. sæti deildarinnar og Stjörnumenn eru áfram í 2. sæti.
Gangur leiksins: 5:2, 13:6, 21:11, 31:13, 42:19, 45:28, 53:34, 58:42, 65:49, 67:54, 71:64, 73:70, 81:75, 86:82, 96:84, 100:91.
KR: Tyler Sabin 20/5 stoðsendingar, Brandon Joseph Nazione 17/9 fráköst, Jakob Örn Sigurðarson 14, Matthías Orri Sigurðarson 12/4 fráköst/7 stoðsendingar, Brynjar Þór Björnsson 12/4 fráköst, Helgi Már Magnússon 11, Björn Kristjánsson 10/5 fráköst, Veigar Áki Hlynsson 4.
Fráköst: 22 í vörn, 8 í sókn.
Stjarnan: Hlynur Elías Bæringsson 18/11 fráköst, Alexander Lindqvist 16/11 fráköst, Austin James Brodeur 16/5 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 14/5 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 12/12 stoðsendingar, Gunnar Ólafsson 8, Mirza Sarajlija 7.
Fráköst: 27 í vörn, 14 í sókn.
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Jakob Árni Ísleifsson.
Áhorfendur: 50