Körfuknattleiksdeild Hauka hefur samið við argentínska bakvörðinn Pablo Bertone um að spila með liðinu á Íslandsmótinu og verður því teflt fram tveimur nýjum leikmönnum á Ásvöllum þegar keppni hefst aftur eftir landsleikjahlé.
Bertone er 30 ára bakvörður sem hefur á undanförnum árum spilað í efstu deildum á Ítalíu og Argentínu en síðast spilaði hann með Cordoba í Argentínu, skoraði þar að meðaltali 9,2 stig í leik, tók 2,4 fráköst og gaf 1,2 stoðsendingar.
Fyrr í mánuðinum sömdu Haukar við bandaríska leikmanninn Jalen Jackson sem er ætlað að fylla skarð Earvin Morris sem meiddist í byrjun árs. Liðið hefur ekki farið vel af stað á tímabilinu en Haukar eru í tólfta og neðsta sæti deildarinnar með 4 stig líkt og nýliðar Hattar.