Nikita Telesford, leikmaður Skallagríms í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, hefur verið úrskurðuð í tveggja leikja bann fyrir olnbogaskot.
Þetta staðfesti Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ á dögunum en hún gaf Hildi Björgu Kjartansdóttur, landsliðskonu í körfuknattleik, tvívegis olnbogaskot í leik Skallagríms og Vals hinn 21. febrúar í Borgarnesi.
Telesford var rekin úr húsi fyrir seinna olnbogaskotið en Hildur Björg þurfti að fara af velli vegna meiðsla eftir viðskipti sín við Telesford.
Telesford missir af næstu tveimur leikjum Skallagríms eins og áður sagði, gegn Keflavík í Borgarnesi, 28. febrúar, og gegn Breiðabliki í Borgarnesi, 3. mars.