Kamerúnski miðherjinn Joel Embiid átti stórleik fyrir Philadelphia 76ers þegar liðið tapaði naumlega fyrir Cleveland Cavaliers í nótt eftir framlengdan leik.
Embiid skoraði 42 stig og náði tvöfaldri tvennu með því að taka 13 fráköst að auki. Auk þess gaf hann sex stoðsendingar en frábær frammistaða hans dugði ekki til þar sem Philadelphia tapaði 109:112 eftir framlengingu, en staðan var 92:92 að loknum fjórða leikhluta.
Fimm aðrir leikir fóru fram í nótt. Þar á meðal vann Dallas Mavericks öruggan 115:98 sigur gegn Brooklyn Nets.
Slóvenski bakvörðurinn Luka Doncic var stigahæstur Dallas-manna með 27 stig. James Harden í liði Brooklyn var stigahæstur í leiknum með 29 stig en samherjar hans höfðu nokkuð hægt um sig og því fór sem fór.
Öll úrslit næturinnar:
Cleveland – Philadelphia 112:109 (frl.)
Dallas – Brooklyn 115:98
Minnesota – Washington 112:128
New Orleans – San Antonio 114:117
Indiana – New York 107:110
Utah – Orlando 124:109