ÍR vann öruggan 91:69 sigur gegn Tindastóli í Domino’s-deildinni í körfuknattleik karla í Hertz hellinum í Seljaskóla í kvöld. ÍR-ingar náðu snemma forystunni, létu hana aldrei af hendi og bættu bara í þegar leið á leikinn.
Eftir ansi rólega byrjun settu ÍR-ingar í fluggírinn í síðari hluta fyrsta leikhluta og voru skyndilega komnir með 14 stiga forystu að honum loknum, 31:17. Stólunum gekk afar illa að hitta úr þriggja stiga skotum sínum og skoruðu aðeins úr tveimur af 13 í leikhlutanum.
Í öðrum leikhluta var meira jafnræði með liðunum þar sem Stólarnir minnkuðu muninn niður í níu stig um miðjan leikhlutann en ÍR-ingar svöruðu og náðu aftur 14 stiga forystu. Það voru þó Stólarnir sem enduðu leikhlutann á betri nótum og voru búnir að minnka muninn í átta stig, 45:37, þegar flautað var til hálfleiks. Í leikhlutanum gekk Stólunum þó áfram illa að hitta úr þriggja stiga skotum, þar sem aðeins eitt af átta skotum fór ofan í.
Í síðari hálfleik mættu ÍR-ingar afar ákveðnir til leiks og voru fljótt búnir að ná 14 stiga forystunni sinni aftur þegar þeir komust í 59:45. Þeir bættu bara í og voru komnir með 21 stiga forystu þegar þriðji leikhlutinn var úti, 75:54.
Þessi frábæri þriðji leikhluti sá til þess að sá fjórði og síðasti var í raun formsatriði fyrir heimamenn. Unnu þeir að lokum góðan 22 stiga sigur.
ÍR-ingar spiluðu góða vörn og dreifðu stigunum bróðurlega á milli sín á meðan Stólarnir virtust ráðvilltir, sérstaklega í sóknarleik sínum. Sem áður segir gekk þeim afar illa að hitta úr þriggja stiga skotum sínum og skoruðu þeir aðeins úr sjö þeirra í heildina, sem er 17 prósent skotnýting.
Stigahæstir í liði ÍR voru Collin Anthony Pryor, sem skoraði 20 stig og tók níu fráköst að auki, og Evan Christopher Singletary, sem skoraði 18 stig og tók sjö fráköst.
Í liði Tindastóls var Jaka Brodnik stigahæstur með 17 stig, auk þess sem hann tók átta fráköst. Þá skoraði Nikolas Tomsick 15 stig
ÍR fer með sigrinum, í það minnsta tímabundið, upp í fimmta sæti deildarinnar. Tindastóll er áfram í áttunda sætinu.