Landsliðsmaðurinn Kári Jónsson var stigahæstur leikmanna Girona þegar liðið tapaði stórt, 55:84, gegn Almansa í spænsku B-deildinni í körfuknattleik í gærkvöldi.
Kári skoraði 12 stig, tók eitt frákast, gaf eina stoðsendingu og stal tveimur boltum á rétt tæplega 24 mínútum í leiknum í gær.
Girona var 20 stigum undir, 11:31, að loknum fyrsta leikhluta og átti erfitt uppdráttar eftir það.
Liðið er nú í 6. sæti B-riðils B-deildarinnar með 26 stig, stigi á eftir Almansa í sætinu fyrir ofan. Efstu fimm liðin í B-riðlinum fara áfram í umspil um laust sæti í spænsku 1. deildinni.