Í fyrstu umferð seinni hluta úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Dominos-deildarinnar, mættust Njarðvík og KR í hörku viðureign í kvöld eins og búist var við.
Svo fór að KR höfðu sigur að lokum 77:81 en Njarðvíkingar leiddu í hálfleik með einu stigi í stöðunni 38:37.
Njarðvíkingar hófu leik töluvert betur en KR voru svo ekki lengi að koma sér aftur í leikinn og allt var í járnum í hálfleik.
Í seinni hálfleik voru KR einfaldlega töluvert betri og höfðu lagað leikskipulag sitt að því sem hafði verið að gerast í fyrri hálfleik.
Það fór svo þannig að KR höfðu 4 stiga sigur og óhætt að segja að hann hafi verði verðskuldaður þar sem heilt yfir þá spiluðu þeir betur þetta kvöldið.
Stigahæstur Njarðvíkinga var Antonio Hester með 25 stig en Tyler Sabin skoraði mest hjá KR eða 26 stig.
„Við vorum kannski aðeins betri af tveim slökum liðum hér í kvöld þá vorum við örlítið betri." sagði Darri Freyr Atlason þjálfari KR eftir leik í kvöld.
Þar í raun hitti Darri naglann afskaplega vel á höfuðið. Þó leikurinn hafi verið jafn að mestu og spennandi þá var þetta kannski ekkert áferðafagur körfuknattleikur. Það sem gerði kannski útslagið fyrir KR að þeir voru töluvert grimmari í seinni hálfleik þegar það mest skipti máli og á meðan voru heimamenn á hælunum.
„Það var bara deyfð yfir okkur þegar við komum út úr hálfleik og mér finnst það skrítið" sagði Logi Gunnarsson eftir leik.
Já það er óhætt að segja að seinni hálfleikur hafi verið Njarðvíkingum afar slappur. Varnarleikur þeirra sem framan af leik hafði bara gengið ágætlega datt niður á það plan sem þeir hafa verið að sýna af nokkuð í síðustu leikjum og þegar á leið fannst manni leikmenn Njarðvíkinga virka þreyttir á parketinu. Er liðið mögulega ekki í nægilega góðu úthaldslegu formi? Antonio Hester þeirra dýrasti leikmaður veldur vonbrigðum. Kappinn búin að vera hér í tvo mánuði og en virðist hann ekki vera komin í almennileg form. Hér áður fyrr sá maður kappann svoleiðis hlaupa völlinn eins og maraþonhlaupari en ítrekað þegar líður á leiki virðist pústið vera farið og hann skokkar á milli leikhelminga.
Hester vissulega setti niður 25 stig í kvöld en þau jöfnuðust nokkuð hratt út hinum megin á vellinum þar sem leikmenn sem hann var að dekka skoruðu ítrekað á hann nokkuð auðveldlega.
Ofaná allt þetta þá hittu Njarðvíkingar einfaldlega á slappan dag en spilamennska þeirra síðustu misseri er varla uppá að komast í úrslitakeppnina í lok vertíðar.
KR sem fyrr segir sýndu engan skínandi góðan leik en nægilega góðan til að landa sigrinum dýrmæta. Þeir í það minnsta börðust hart fyrir sínu og uppskáru eftir því. Tyler Sabin þeirra aðalskorari var seinn í gang en Njarðvikingar brugðu á það ráð að setja Mario Matasovic honum til höfuðs. Það bragð virtist ætla að virka enda Mario stæðilegur og eitthvað hærri en Sabin. En þegar leið á fann Sabin leiðir og endaði leik með 26 stig. Ótrúleg skormaskína sem er þeim gríðarlega mikilvægur.
Eftir kvöldið eru KR komnir í þriðja sæti deildarinnar með 16 stig líkt og Stjarnan og Þórsarar úr Þorlákshöfn. Njarðvíkingar eru hinsvegar rétt að slefa í úrslitakeppni með 10 stig í 7 sæti deildarinnar og þurfa tilfinnanlega að taka sigur í næsta leik sem er gegn Haukum.