Larry Thomas átti stórleik fyrir Þór frá Þorlákshöfn þegar liðið heimsótti Hauka í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Dominos-deildinni, í Ólafssal að Ásvöllum í kvöld.
Leiknum lauk með 116:100-sigri Þórsara en Thomas skoraði 36 stig og tók sjö fráköst.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Þórsarar leiddu með fimm stigum í hálfleik, 62:57.
Þórsarar skoruðu 34 stig í þriðja leikhluta gegn 24 stigum Hauka og Hafnfirðingum tókst ekki að snúa leiknum sér í vil í fjórða leikhluta.
Styrmir Snær Þrastarson fór mikinn í liði Þórsara og skoraði 32 stig og Callum Lawson skoraði 20 stig.
Hjá Haukum var Hansel Atencia stigahæstur með 19 stig og Breki Gylfason skoraði 15 stig.
Þórsarar eru í öðru sæti deildarinnar með 18 stig en Haukar eru í slæmum málum í neðsta sætinu með 4 stig.