Martin Hermannsson átti mjög góðan leik fyrir Valencia þegar liðið tók á móti Manresa í efstu deild Spánar í körfuknattleik í kvöld.
Martin skoraði 12 stig, tók eitt frákast og gaf sjö stoðsendingar en leiknum lauk með 112:82-sigri Valencia.
Valencia leiddi með einu stigi í hálfleik, 54:53, en Valencia-menn voru mun sterkari í síðari hálfleik.
Í þriðja leikhluta skoraði Valencia 29 stig gegn 15 stigum Manresa og sama var upp á teningnum í fjórða leikhluta.
Valencia skoraði 29 stig og Manresa 14 og Valencia fagnaði öruggum sigri í leikslok.
Valencia er í fimmta sæti deildarinnar með 34 stig, 10 stigum minna en topplið Real Madrid.