Fjölnir styrkti stöðu sína í fjórða sæti úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik, Dominos-deildarinnar, með því að sigra Skallagrím á heimavelli sínum í Grafarvogi í kvöld, 98:90.
Fjölnir er með 16 stig í fjórða sætinu en Skallagrímur er með 12 stig í fimmta sætinu og leikurinn því gríðarlega mikilvægur í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.
Skallagrímur var með forystu frá fyrstu mínútu og komst í 12:5 en Fjölnir minnkaði muninn í 21:20 í lok fyrsta leikhluta. Borgnesingar skoruðu níu fyrstu stigin í öðrum leikhluta og komust mest þrettán stigum yfir, 40:27, en aftur átti Fjölnir góðan endasprett og staðan var 51:47, Skallagrími í hag, í hálfleik.
Keira Robinson skoraði hvorki fleiri né færri en 29 stig fyrir Skallagrím í fyrri hálfleik og Ariel Hearn gaf henni lítið eftir og skoraði 21 fyrir Fjölni á þessum fyrstu 20 mínútum.
Fjölnir skoraði síðan fyrstu sjö stig síðari hálfleiks og komst yfir í fyrsta skipti, 54:51. Liðin skiptust á um forystuna en Fjölnir var yfir að loknum þriðja leikhluta, 67:66.
Eftir þrjár þriggja stiga körfur frá hinni óstöðvandi Ariel Hearn á fyrstu tveimur mínútum fjórða leikhluta var Fjölnir kominn í 76:70. Grafarvogsliðið fylgdi þessu eftir, komst í 88:77 þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir og það forskot var of mikið fyrir Borgnesinga.
Ariel Hearn átti magnaðan leik fyrir Fjölni en hún skoraði 46 stig, hitti úr níu af fimmtán þriggja stiga skotum, og tók 13 fráköst. Sara Carina Vaz Djassi skoraði 19 stig og Lina Pikciuté var með 16 stig og 12 fráköst.
Keira Robinson skoraði 39 stig fyrir Skallagrím og tók 10 fráköst og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði 25 stig.
Gangur leiksins: 2:7, 5:12, 13:16, 20:21, 22:32, 27:40, 37:47, 47:51, 54:54, 58:57, 61:61, 67:66, 76:70, 83:74, 88:80, 98:90.
Fjölnir: Ariel Hearn 46/13 fráköst/8 stoðsendingar, Sara Carina Vaz Djassi 19/4 fráköst/5 stoðsendingar, Lina Pikciuté 16/12 fráköst/5 stoðsendingar, Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir 10, Fanney Ragnarsdóttir 5/4 fráköst, Heiða Hlín Björnsdóttir 2.
Fráköst: 29 í vörn, 6 í sókn.
Skallagrímur: Keira Breeanne Robinson 39/10 fráköst/5 stoðsendingar, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 25/4 fráköst, Sanja Orozovic 13/8 stoðsendingar, Nikita Telesford 8/6 fráköst, Embla Kristínardóttir 3/4 fráköst, Maja Michalska 2/5 fráköst.
Fráköst: 22 í vörn, 10 í sókn.
Dómarar: Jóhann Guðmundsson, Birgir Örn Hjörvarsson, Guðmundur Ragnar Björnsson.