Jordan Roland átti stórleik fyrir Val þegar liðið heimsótti KR í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Dominos-deildinni, í DHL-höllina í Vesturbæ í kvöld.
Roland skoraði 24 stig í fyrri hálfleik, bætti sextán stigum við í síðari hálfleik, og endaði með 40 stig.
Liðin skiptust á að skora í fyrsta leikhluta og var staðan jöfn 25:25 að honum loknum. Áfram var mikið jafnræði með liðunum í öðrum leikhluta og Vesturbæingar leiddu með einu stigi í hálfleik, 43:42.
Valsmenn mættu ákveðnari til leiks í síðari hálfleik og náðu yfirhöndinni í leiknum. Staðan að honum loknum var 66:64, Valsmönnum í vil og þeir byrjuðu fjórða leikhluta af miklum krafti.
Valsmenn skoruðu fyrstu tólf stigin í fjórða leikhluta og komust fjórtán stigum yfir, 78:64. KR-ingar náðu að minnka muninn í tíu stig en lengra komust þeir ekki og Valur fagnaði 87:77-sigri.
Jón Arnór Stefánsson skoraði 12 stig í liði Vals og Kristófer Ecox skoraði 10 stig og tók tíu fráköst.
Brandon Azione og Matthías Orri Sigurðarson voru stigahæstir í liði KR með 15 stig hvor.
Valsmenn fara með sigrinum upp í sjöunda sæti deildarinnar í tólf stig en KR er áfram í fjórða sætinu með átján stig.
Jordan Roland dró vagninn hjá Valsmönnum í fyrri hálfleik og skoraði rúmlega helming stiga liðsins.
Það var ljóst að hann gæti ekki dregið vagninn einn í stigaskori í síðari hálfleik og liðsfélagar hans mættu vel gíraðir í síðari háflleikinn.
Í seinni hálfleik komst miklu betri taktur í Valsliðið, bæði sóknar- og varnarlega, og allir leikmenn liðsins lögðu sitt af mörkum þegar kom að stigaskorun liðsins.
Tyler Sabin náði sér engan veginn á strik í liði KR í seinni hálfleik en hann hefur dregið vagninn í stigaskori liðsins í vetur.
Það virðist vera þannig að þegar hann skorar ekki sín 20-30 stig þá lendir KR-liðið í basli og það varð raunin í kvöld.
Þá var Darri Freyr Atlason, þjálfari KR-inga, rekinn út úr húsi fyrir mótmæli um miðjan fjórða leikhluta og það reyndist dýrt.
Þegar allt kemur til alls var það frábær varnarleikur Valsmanna sem skilaði þeim sigrinum í kvöld.
Jón Arnór Stefánsson, Kristófer Acox og Pavel Ermolinskij ætluðu sér ekki að tapa á gamla heimavellinum og það skein úr augunum á þeim allan leikinn en þetta var fyrsti sigur Vals í Vesturbæ í 22 ár.
KR-ingar áttu engin svör við varnarleik Vals og þegar hlutirnir voru ekki að falla með þeim í síðari hálfleik fóru þeir að pirra sig út í dómarana sem kann ekki góðri lukku að stýra.
Þá á góður þjálfari eins og Darri Freyr ekki að láta reka sig út úr húsi í svona mikilvægum leik á ögurstundu og hann veit það best sjálfur.
Valsmenn voru betur gíraðir í leikinn og náðu loksins að tengja saman tvo sigurleiki. Vonandi fyrir þá eru þeir komnir á skrið enda í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni.
KR-ingar verða að gera betur, sérstaklega þegar Tyler Sabin er ekki á deginum sínum.
Gangur leiksins: 8:5, 14:16, 21:18, 25:25, 33:27, 38:32, 40:38, 43:42, 51:47, 55:55, 63:59, 64:66, 64:72, 65:81, 72:85, 77:87.
KR: Brandon Joseph Nazione 15/8 fráköst, Matthías Orri Sigurðarson 15/7 stoðsendingar, Tyler Sabin 14, Jakob Örn Sigurðarson 11, Brynjar Þór Björnsson 7, Helgi Már Magnússon 5, Björn Kristjánsson 4/4 fráköst, Veigar Áki Hlynsson 3, Zarko Jukic 3.
Fráköst: 23 í vörn, 3 í sókn.
Valur: Jordan Jamal Roland 40, Jón Arnór Stefánsson 12/4 fráköst, Kristófer Acox 10/10 fráköst, Miguel Cardoso 10/5 fráköst/10 stoðsendingar, Pavel Ermolinskij 6/7 stoðsendingar, Hjálmar Stefánsson 5/4 fráköst, Sinisa Bilic 4/6 fráköst.
Fráköst: 24 í vörn, 9 í sókn.
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Sigurður Jónsson.
Áhorfendur: 168