Leikur ekki sinn fyrsta leik í nótt

Blake Griffin í leik með Detroit Pistons fyrr á árinu.
Blake Griffin í leik með Detroit Pistons fyrr á árinu. AFP

Kraftframherjinn Blake Griffin gekk í upphafi vikunnar til liðs við Brooklyn Nets frá Detroit Pistons í NBA-deildinni í körfuknattleik. Hann mun þó ekki spila með liðinu í nótt þegar það mætir Boston Celtics.

Griffin hefur verið að glíma við meiðsli undanfarið, og raunar átt í miklum meiðslum síðasta eitt og hálfa árið, og verður hvíldur í leiknum í nótt. Hann hefur ekki spilað mikið undanfarið fyrir Detroit af þessum sökum og því telja forsvarsmenn Brooklyn rétt að fara sér að engu óðslega.

Griffin samdi við Detroit um starfslok í síðustu viku og samdi svo við Brooklyn á mánudaginn, þar sem hann hittir fyrir fleiri stórstjörnur, þá Kevin Durant, James Harden og Kyrie Irving.

Spennandi verður að sjá hvort Griffin geti endurheimt fyrra form, en hann lék afar vel fyrir LA Clippers á árunum 2009-2018 áður en hann gekk til liðs við Detroit, þar sem honum gekk sömuleiðis vel fyrsta eina og hálfa árið, áður en fór að síga á ógæfuhliðina síðastliðið eitt og hálft ár.

Var hann til að mynda fimm ár í röð, 2011-2015, valinn til þess að taka þátt í stjörnuleik NBA og var sömuleiðis valinn til þess að gera það árið 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert