Curry skaut toppliðið í kaf

Stephen Curry fór á kostum í kvöld.
Stephen Curry fór á kostum í kvöld. AFP

Steph Curry var óstöðvandi á lokakaflanum er Golden State Warriors hafði betur gegn Utah Jazz á heimavelli í NBA-körfuboltanum í Bandaríkjunum í kvöld, 131:119. Curry skoraði 10 af 13 síðustu stigum Golden State. 

Golden State var með forskot nánast allan leikinn og var sigurinn verðskuldaður gegn Utah-liði sem hefur hikstað síðustu vikur, eftir stórkostlegt gengi þar á undan. 

Curry skoraði alls 32 stig í leiknum og þá skilaði Draymond Green þrefaldri tvennu; 11 stigum, 12 fráköstum og 12 stoðsendingum. Rudy Gobert skoraði 24 stig og tók 28 fráköst fyrir Utah. 

Þrátt fyrir úrslitin er Utah enn í toppsæti Vesturdeildarinnar með 28 sigra og 10 töp. Golden State er í níunda sæti í sömu deild með 20 sigra og 19 töp. 

Oklahoma City Thunder vann 128:122-heimasigur á Memphis Grizzlies fyrr í dag. Shai Gilgeous-Alexander skoraði 30 stig fyrir Oklahoma og Ja Morant gerði 22 fyrir Memphis. 

Memphis er í tíunda sæti Vesturdeildarinnar með 17 sigra og 18 töp og Oklahoma í 12. sæti með 17 sigra og 22 töp. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert