Elvar Már Friðriksson var í aðalhlutverki hjá Siauliai sem átti aldrei möguleika gegn stórliði Zalgiris Kaunas í litháísku A-deildinni í körfuknattleik í dag.
Elvar var stigahæstur hjá Siauliai með 15 stig, átti flestar stoðsendingar, 5 talsins og spilaði mest í 29 mínútur. Þá var hann með flest framlagsstig í liðinu, þrettán, og til víðbótar tók Njarðvíkingurinn tvö fráköst.
Zalgiris, sem leikur í Euroleague og er langefst í deildinni í Litháen, átti í vandræðum með botnlið deildarinnar í fyrri hálfleik og var með nauma forystu að honum loknum, 37:36. Í seinni hálfleik skoruðu Elvar og félagar aðeins 24 stig gegn 59 og lokatölur urðu því 96:60.
Siauliai er í tíunda og neðsta sæti með sex sigra í 24 leikjum en á samt enn möguleika á að ná áttunda sætinu og komast í úrslitakeppnina.