Þórsarar upp í annað sætið

Callum Lawson átti góðan leik fyrir Þór.
Callum Lawson átti góðan leik fyrir Þór. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Eftir tvö töp í röð vann Þór frá Þorlákshöfn sætan 92:83-sigur á Stjörnunni á heimavelli í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. Fyrir vikið fóru Þórsarar upp í 20 stig og í annað sætið. Stjarnan hefur nú tapað tveimur leikjum í röð. Þórsarar unnu fyrri leik liðanna á tímabilinu í Garðabænum í janúar, 111:100.

Stjarnan fór betur af stað og var yfir allan fyrsta leikhlutann. Að honum loknum var staðan 24:21. Stjarnan hélt áfram að bæta í og með góðum öðrum leikhluta tókst gestunum að ná fínu forskoti og var staðan í hálfleik 46:33. Stjarnan hitti vel fyrir utan þriggja stiga línuna og Þórsarar voru í vandræðum með sterka vörn gestanna.

Allt annað Þórslið kom til leiks í seinni hálfleik og Litháinn Adomas Drungilas, sem lét lítið fyrir sér fara í fyrri hálfleik, lék gríðarlega vel og með hann í stuði minnkaði Þór muninn, jafnaði og komst loks yfir. Stjörnumenn hittu mun verr úr þriggja stiga skotum en í upphafi leiks og það nýttu Þórsarar sér. Var staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann því 62:60, Þór í vil.  

Þór var áfram yfir framan af í fjórða leikhluta, en Stjörnumenn aldrei langt undan. Var staðan 79:76, Þór í vil, þegar þrjár mínútur voru eftir. Þórsarar voru sterkari í blálokin og tvær þriggja stiga körfur frá Ragnari Erni Bragasyni undir lokin gulltryggðu sigur heimamanna. Bæði lið eru með 20 stig, en Þórsarar í sætinu fyrir ofan vegna innbyrðisviðureigna.

Callum Lawson var stigahæstur í liði Þórs með 21 stig og Ragnar Örn Bragason skoraði 15. Ægir Þór Steinarsson skoraði 20 fyrir Stjörnuna og Mirza Sarajlija 13 stig.

Þór Þorlákshöfn - Stjarnan 92:83

Icelandic Glacial höllin, Dominos deild karla, 18. mars 2021.

Gangur leiksins:: 5:5, 7:11, 14:20, 21:24, 21:26, 23:36, 28:38, 33:46, 42:50, 48:53, 58:56, 62:60, 67:69, 76:71, 81:76, 92:83.

Þór Þorlákshöfn: Callum Reese Lawson 21/8 fráköst, Ragnar Örn Bragason 15, Larry Thomas 13/6 fráköst/5 stoðsendingar, Halldór Garðar Hermannsson 12, Emil Karel Einarsson 10/10 fráköst, Adomas Drungilas 10/10 fráköst/9 stoðsendingar, Davíð Arnar Ágústsson 5/4 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson 5/5 fráköst, Ingimundur Orri Jóhannsson 1.

Fráköst: 33 í vörn, 14 í sókn.

Stjarnan: Ægir Þór Steinarsson 20/7 fráköst/5 stoðsendingar, Mirza Sarajlija 13/5 fráköst, Austin James Brodeur 12/7 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 11/7 fráköst, Gunnar Ólafsson 11, Arnþór Freyr Guðmundsson 8/4 fráköst, Hlynur Elías Bæringsson 7/6 fráköst, Hugi Hallgrímsson 1.

Fráköst: 24 í vörn, 14 í sókn.

Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Jóhannes Páll Friðriksson, Rögnvaldur Hreiðarsson.

Áhorfendur: 50

Þór Þ. 92:83 Stjarnan opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert