Eftir tvö töp í röð vann Þór frá Þorlákshöfn sætan 92:83-sigur á Stjörnunni á heimavelli í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. Fyrir vikið fóru Þórsarar upp í 20 stig og í annað sætið. Stjarnan hefur nú tapað tveimur leikjum í röð. Þórsarar unnu fyrri leik liðanna á tímabilinu í Garðabænum í janúar, 111:100.
Stjarnan fór betur af stað og var yfir allan fyrsta leikhlutann. Að honum loknum var staðan 24:21. Stjarnan hélt áfram að bæta í og með góðum öðrum leikhluta tókst gestunum að ná fínu forskoti og var staðan í hálfleik 46:33. Stjarnan hitti vel fyrir utan þriggja stiga línuna og Þórsarar voru í vandræðum með sterka vörn gestanna.
Allt annað Þórslið kom til leiks í seinni hálfleik og Litháinn Adomas Drungilas, sem lét lítið fyrir sér fara í fyrri hálfleik, lék gríðarlega vel og með hann í stuði minnkaði Þór muninn, jafnaði og komst loks yfir. Stjörnumenn hittu mun verr úr þriggja stiga skotum en í upphafi leiks og það nýttu Þórsarar sér. Var staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann því 62:60, Þór í vil.
Þór var áfram yfir framan af í fjórða leikhluta, en Stjörnumenn aldrei langt undan. Var staðan 79:76, Þór í vil, þegar þrjár mínútur voru eftir. Þórsarar voru sterkari í blálokin og tvær þriggja stiga körfur frá Ragnari Erni Bragasyni undir lokin gulltryggðu sigur heimamanna. Bæði lið eru með 20 stig, en Þórsarar í sætinu fyrir ofan vegna innbyrðisviðureigna.
Callum Lawson var stigahæstur í liði Þórs með 21 stig og Ragnar Örn Bragason skoraði 15. Ægir Þór Steinarsson skoraði 20 fyrir Stjörnuna og Mirza Sarajlija 13 stig.
Icelandic Glacial höllin, Dominos deild karla, 18. mars 2021.
Gangur leiksins:: 5:5, 7:11, 14:20, 21:24, 21:26, 23:36, 28:38, 33:46, 42:50, 48:53, 58:56, 62:60, 67:69, 76:71, 81:76, 92:83.
Þór Þorlákshöfn: Callum Reese Lawson 21/8 fráköst, Ragnar Örn Bragason 15, Larry Thomas 13/6 fráköst/5 stoðsendingar, Halldór Garðar Hermannsson 12, Emil Karel Einarsson 10/10 fráköst, Adomas Drungilas 10/10 fráköst/9 stoðsendingar, Davíð Arnar Ágústsson 5/4 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson 5/5 fráköst, Ingimundur Orri Jóhannsson 1.
Fráköst: 33 í vörn, 14 í sókn.
Stjarnan: Ægir Þór Steinarsson 20/7 fráköst/5 stoðsendingar, Mirza Sarajlija 13/5 fráköst, Austin James Brodeur 12/7 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 11/7 fráköst, Gunnar Ólafsson 11, Arnþór Freyr Guðmundsson 8/4 fráköst, Hlynur Elías Bæringsson 7/6 fráköst, Hugi Hallgrímsson 1.
Fráköst: 24 í vörn, 14 í sókn.
Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Jóhannes Páll Friðriksson, Rögnvaldur Hreiðarsson.
Áhorfendur: 50