Keflvíkingar áttu ekki í teljandi vandræðum með nágranna sína úr Njarðvík þegar liðin mættust í Dominos-deild karla í körfuknattleik í Blue-höllinni í Keflavík í kvöld.
89:57-sigur Keflvíkinga varð lokastaða kvöldsins og sigurinn síst of stór ef eitthvað.
Hingað til hafa þessar viðureignir verið augnakonfekt mikið en þetta kvöldið mætti í raun bara annað liðið til leiks.
Skemmst frá því að segja var eins og vantaði Njarðvíkurliðið til leiks. Aðeins 9 stig skildu liðin í hálfleik en seinni hálfleikur var eign heimamanna og í raun höfðu þeir gert út um leikinn eftir 30 mínútur.
Það skiptir litlu um stöðu þessara tveggja liða í deildinni þegar kemur að viðureignum þeirra. Ein allra frægasta rimma íþrótta á landinu og eftirvænting að öllu jöfnu mikil í Reykjanesbæ.
Fyrir leik voru heimamenn töluvert sigurstranglegri enda á toppi deildarinnar og svo sú staðreynd að gestirnir úr Njarðvík hafa ekki beint verið að sýna neina gríðarlega takta í sínum síðustu leikjum.
En þegar öllu er á botninn hvolft þá eru nokkrir hlutir sem skilja þessi lið að eins og staðan er í dag. Keflavíkurliðið er einfaldlega betur mannað en Njarðvíkurliðið og kannski lítið hægt að setja út á það.
Erlendu leikmenn milli liðanna eru þannig að Keflvíkingar eru með þrjá mjög góða og í raun tvo bestu útlendinga deildarinnar í dag á meðan erlendir leikmenn Njarðvíkinga eru að sýna spilamennsku sem vart myndi duga í 1. deildina, með fullri virðingu fyrir henni.
Antonio Hester sem Njarðvíkingar veðja á sem sitt dýrasta ígildi (Bandaríkjamaður) skilar vissulega einhverjum 15 til 20 stigum í leik en varnarleikurinn sem kappinn býður upp á núllar þau stig hans út og rúmlega það.
En staða liðsins í deildinni slær í takt við leik liðsins og lítið hægt að stinga hausnum í sandinn með það. Botninum náð mögulega hjá þeim grænklæddu en komandi leikir hjá þeim skera úr um hvort liðið falli í fyrsta skiptið í sögu félagsins úr úrvalsdeild.
Keflavík einfaldlega héldu sínu striki og fátt virðist koma í veg fyrir að þeir tryggi sér deildarmeistaratitlinn í ár og þar með heimavallarrétt í allri úrslitakeppninni.
Undirritaður hefur sagt frá upphafi móts að lið Keflavíkur er það lið sem þarf að sigra til að vinna titilinn í ár. Fyrir utan eitt feilspor þeirra í Garðabæ í vetur þá virðist leikur þeirra á tímum vera óaðfinnanlegur.
Meira að segja sá kafli þar sem ákveðið einbeitingarleysi hrjáði liðið á tímum í vetur virðist vera horfinn.
Gangur leiksins: 7:2, 11:7, 20:12, 23:15, 28:21, 34:30, 42:30, 45:36, 50:38, 59:38, 63:42, 73:44, 77:46, 85:48, 87:55, 89:57.
Keflavík: Hörður Axel Vilhjálmsson 22/10 stoðsendingar, Dominykas Milka 19/12 fráköst, Calvin Burks Jr. 15, Deane Williams 14/13 fráköst/4 varin skot, Ágúst Orrason 11, Arnór Sveinsson 5, Valur Orri Valsson 3/4 fráköst.
Fráköst: 31 í vörn, 6 í sókn.
Njarðvík: Antonio Hester 20/15 fráköst, Maciek Stanislav Baginski 7/6 fráköst, Veigar Páll Alexandersson 7, Logi Gunnarsson 6, Baldur Örn Jóhannesson 4/4 fráköst, Rodney Glasgow Jr. 4, Mario Matasovic 3, Kyle Johnson 2/5 fráköst, Jón Arnór Sverrisson 2, Ólafur Helgi Jónsson 2/4 fráköst.
Fráköst: 32 í vörn, 8 í sókn.
Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Gunnlaugur Briem.
Áhorfendur: 200