Gamla ljósmyndin: 14 ára í A-landsliði

Minni útgáfa af myndinni.
Minni útgáfa af myndinni. Morgunblaðið/Sverrir Vilhelmsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Helena Sverrisdóttir, landsliðskona í körfuknattleik, sneri nýlega aftur á körfuboltavöllinn eftir barnsburð en hún leikur með Val í Dominos-deildinni. 

Helena hefur verið lengi í eldlínunni og þótt hún sé einungis 33 ára gömul, frá því fyrr í mánuðinum, nær ferill hennar í meistaraflokki tveimur áratugum en Helena byrjaði að æfa með meistaraflokki Hauka í Hafnarfirði aðeins 12 ára gömul. 

Helena var óvenjuhæfileikarík og þekkt fyrir leikskilning í hæsta gæðaflokki. Kallið frá landsliðinu kom fyrr en dæmi eru um hér á landi í boltagreinunum því Helena var aðeins 14 ára þegar hún var valin í A-landsliðið í fyrsta skipti hinn 17. desember árið 2002. Var þá meðfylgjandi mynd tekin en þá stóð fyrir dyrum hjá landsliðinu að taka þátt í móti í Lúxemborg á milli jóla og nýárs. 

Myndina tók Sverrir Vilhelmsson sem myndaði fyrir Morgunblaðið í áratugi og birtist á baksíðu blaðsins 18. desember árið 2002. Í umfjölluninni kemur fram að Helena hafi þá verið í 9. bekk í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði og var enn gjaldgeng með unglingaflokkunum 9. og 10. flokki. 

Myndin eins og hún birtist á baksíðu Morgunblaðsins.
Myndin eins og hún birtist á baksíðu Morgunblaðsins. Morgunblaðið/Sverrir Vilhelmsson

Helena vann vel úr hæfileikum sínum og hefur náð lengst íslenskra körfuboltakvenna á erlendri grundu. Helena komst í úrslitakeppni NCAA, bandaríska háskólaboltans, þegar hún lék með TCU í Dallas. Fékk hún All American-útnefningu þegar hún lék þar sem er geysilegur heiður. Á ferli sínum í NCAA sýndi Helena ótrúlega fjölhæfni því hún náði að koma við sögu í öllum fimm stöðunum á vellinum með TCU. Slíkt er nánast óþekkt í íþróttinni. 

Á ferli sínum sem atvinnumaður lék Helena með Good Angels Kosice í Slóvakíu, Diosgyöri og Ceglédi í Ungverjalandi og Polkowise í Póllandi. Árið 2013 komst Good Angels Kosice í undanúrslit Euroleague, sterkustu Evrópukeppninnar hjá félagsliðum, með Helenu innanborðs. Hér heima lék hún lengst af með Haukum en gekk í raðir Vals árið 2018. Hefur hún orðið bæði Íslands- og bikarmeistari með báðum liðum. Helena hefur sex sinnum verið valin besti leikmaður Íslandsmótsins og tólf sinnum körfuknattleikskona ársins hjá KKÍ. 

Helena Sverrisdóttir hafnaði í 4. sæti í kjörinu á Íþróttamanni ársins árið 2009. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka