Elvar Már Friðriksson var í aðalhlutverki hjá Siauliai sem vann gríðarlega mikilvægan 99:68-sigur á Neptunas í litháísku A-deildinni í körfuknattleik í kvöld en bæði lið eru í fallbaráttunni.
Njarðvíkingurinn heldur áfram að leika á als oddi með botnliðinu en hann var stigahæstur í kvöld með 18 stig á þeim 27 mínútum sem hann spilaði. Þá gaf hann sjö stoðsendingar og tók tvö fráköst.
Siauliai er í 10. og neðsta sæti deildarinnar með sjö sigra í 25 leikjum en Neptunas er í 8. sæti með átta vinninga. Neðsta liðið fellur úr deildinni og það næstneðsta fer í umspil.