Valur vann nauman sigur á Njarðvík, 80:78, í úrvalsdeild karla í körfubolta, Dominos-deildinni, í Ljónagryfjunni í Njarðvík.
Heimamenn í Njarðvík voru með stjórnartaumana fyrstu þrjá leikhlutana en Valsmenn skelltu í lás í fjórða leikhluta með öflugum varnarleik og lögðu þar með grunninn að góðum sigri.
Þegar fimm sekúndur voru eftir áttu Njarðvíkingar lokasóknina og boltinn barst til Jóns Arnórs Sverrissonar sem fékk þriggja stiga tilraun en ekki vildi þessi maríubæn niður að sinni og því héldu Valsmenn inn á Reykjanesbraut með tvö mikilvæg stig í farteskinu.
Þetta var fjórði deildarsigur Vals í röð en Njarðvíkingar að sama skapi hafa tapað síðustu sex leikjum sínum. Augljós batamerki voru á leik Njarðvíkinga frá afhroðinu í Keflavík en Valsmenn að sama skapi eru að láta vel í sér heyra þessi dægrin.
Það virtist vera öllum Njarðvíkingum fyllilega ljóst hvernig staða liðsins er þessa dagana. Frá fyrstu mínútu sá maður glitta í þá staðreynd að liðið getur bara spilað fínan bolta, og þá helst varnarleik og baráttu. Menn voru að skutla sér á eftir boltum og þetta er akkúrat sem hefur vantað. Á tímum voru það Valsmenn sem voru gersamlega ráðþrota í sínum sóknarleik og Njarðvíkingar litu bara helvíti vel út. Sem fyrr segir töluverð bæting frá síðasta leik og í raun síðustu leikjum þar sem algert vonleysi hefur einkennt liðið.
Þrátt fyrir gríðarlega baráttu og elju þá féllu heimamenn á prófinu með 4.9. Á ögurstundu, eða í fjórða leikhluta gátu Njarðvíkingar vart varla hitt sjóinn þó þeir stæðu á bryggjubakkanum. Reyndar stóð Valsvörnin ansi þétt fyrir. Og það er í raun vendipunktur leiksins, þessi varnarleikur sem Valsmenn buðu uppá í fjórða leikhluta færði þeim þennan sigur.
En fyrir Valsmenn að taka sigur í þessum leik er bara ansi gott því þeir voru að manni finnst alls ekki nálægt sínu besta. Liðið hefur náttúrulega tekið stökkbreytingu með komu Jordan Roland sem er hörku leikmaður. Að sama skapi virðist Sinisa Bilic að komast í sitt besta form en hann átti skínandi fínan leik í kvöld. Valsmenn ættu að fara nokkuð auðveldlega í úrslitakeppnina þetta árið en hvort þeir geri usla þar er undirritaður ekki tilbúin að kvitta uppá alveg strax. Þeir eru í það minnsta á þröskuldinum.
Gangur leiksins:: 2:5, 12:9, 15:11, 22:17, 25:21, 30:27, 34:36, 41:38, 47:40, 53:46, 58:51, 63:57, 65:67, 68:73, 72:80, 78:80.
Njarðvík: Antonio Hester 17/12 fráköst, Kyle Johnson 16/8 fráköst, Mario Matasovic 11, Maciek Stanislav Baginski 11/4 fráköst, Rodney Glasgow Jr. 10/4 fráköst/8 stoðsendingar, Jón Arnór Sverrisson 8/6 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 3, Baldur Örn Jóhannesson 2.
Fráköst: 30 í vörn, 7 í sókn.
Valur: Jordan Jamal Roland 20/5 fráköst, Sinisa Bilic 19/8 fráköst, Pavel Ermolinskij 13/9 fráköst/5 stoðsendingar, Miguel Cardoso 12/6 fráköst/7 stoðsendingar, Kristófer Acox 9/4 fráköst, Jón Arnór Stefánsson 5, Hjálmar Stefánsson 2.
Fráköst: 26 í vörn, 12 í sókn.
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Jóhannes Páll Friðriksson, Johann Gudmundsson.