Tveggja leikja bann fyrir olnbogaskot

Adomas Drungilas hefur verið úrskurðaður í tveggja leikja bann.
Adomas Drungilas hefur verið úrskurðaður í tveggja leikja bann. mbl.is/Kristinn Magnússon

Körfuboltamaðurinn Adomas Drungilas hefur verið úrskurðaður í tveggja leikja keppnisbann af aga- og úrskurðarnefnd Körfuknattleikssambands Íslands fyrir að veita andstæðingi olnbogaskot í leik Þórs frá Þorlákshöfn og Stjörnunnar í síðustu viku.

Litháinn sveiflaði olnboganum í andlit Mirza Saralilja er Þórsarar unnu 92:83-sig­ur á heimavelli. Dómarar leiksins sáu ekki atvikið og gátu því ekkert dæmt á vellinum. Segir meðal annars í niðurstöðu nefndarinnar „að myndbandsupptaka sem fylgdi kæru sýni með óyggjandi hætti að kærði hafi, með því að reka olnboga sinn í höfuð andstæðings síns, framið brot sem hefði átt að leiða til brottvísunar.“

Var hann því úrskurðaður í tveggja leikja bann en keppni liggur niðrí á Íslandsmótinu vegna hertra aðgerða yfirvalda til að sporna við kórónuveirufaraldrinum. Næstu tveir leikir Þórs, sem situr í öðru sæti, eiga að vera gegn Þór Akureyri og Hetti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert