Leikið í körfunni í næstu viku

Hlynur Bæringsson fyrirliði Stjörnunnar sem varð bikarmeistari í fyrra og …
Hlynur Bæringsson fyrirliði Stjörnunnar sem varð bikarmeistari í fyrra og Hannes Sigurbjörn Jónsson formaður KKÍ. Ljósmynd/KKÍ/Jónas

Körfuknattleikssamband Íslands stefnir að því að hefja leik í efstu deildum karla og kvenna í lok næstu viku. 

Hannes Sigurbjörn Jónsson, formaður KKÍ, tjáði mbl.is að töluverð vinna hafi verið unnin á bak við tjöldin að undanförnu. Forráðamenn í íþróttahreyfingunni hafi frekar búist við því en ekki að íþróttakeppnir yrðu leyfðar á ný eins og kom á daginn hjá heilbrigðisráðherra eftir ríkisstjórnarfund í dag. 

„Við höfðum undirbúið okkur undanfarna daga og vorum undir það búin að þetta yrði niðurstaðan. Við horfum til þess að deildakeppnin í tveimur efstu deildunum hefjist á ný í lok næstu viku. Æfingar verða leyfðar frá og með fimmtudeginum og fyrstu leikir viku síðar,“ sagði Hannes og hann segir stefnt að því að ljúka deildakeppnum í efstu deildum í kringum 10. maí.

Til stóð að keppt yrði í VÍS-bikarkeppninni í lok apríl. Ákveðið hefur verið að bíða með bikarkeppnina og verður leikið í deildinni á þeim tíma. Hannes segir að keppt verði í bikarkeppninni og bikarmeistarar árið 2021 verði verðlaunaðir. Spurning sé bara hvenær það verði og einn möguleikinn í stöðunni sé að halda áfram með bikarkeppnina í haust. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert