Skallagrímur skellti Keflvíkingum

Ariel Hearn var drjúg fyrir Fjölni í kvöld og nær …
Ariel Hearn var drjúg fyrir Fjölni í kvöld og nær hér boltanum í Smáranum. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Skallagrímur gerði sér lítið fyrir og vann stórsigur á toppliði Keflavíkur þegar liðin mættust í sextándu umferð úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik, Dominos-deildarinnar, í Borgarnesi í kvöld, 76:64.

Eftir jafnan fyrri hálfleik og stöðuna 35:30 Skallagrími í hag að honum loknum gerðu Borgnesingar út um leikinn í þriðja leikhluta með því að skora 23 stig gegn 10. Skallagrímur náði um tíma 24 stiga forystu í fjórða leikhluta. Keflavík saxaði á forskotið undir lokin en átti aldrei möguleika á sigri.

Nikita Telesford skoraði 17 stig fyrir Skallagrím, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 15 og Embla Kristínarsdóttir 13. Anna Ingunn Svansdóttir skoraði 27 stig fyrir Keflavík og Daniela Wallen var með svakalega tvennu, 20 stig og 20 fráköst.

Skallagrímur er þá með 14 stig í fimmta sæti deildarinnar en á þrátt fyrir sigurinn litla möguleika á að ná fjórða sætinu og komast í úrslitakeppnina.

Keflvíkingum mistókst að ná tveggja stiga forskoti á Val í einn klukkutíma eða svo en viðureign Vals og KR hófst kl. 20.15 á Hlíðarenda. Keflavík er áfram með 24 stig eins og Valur.

Haukar náðu Keflavík

Haukar náðu Keflavík og eru líka með 24 stig eftir sigur á Snæfelli í Stykkishólmi í kvöld, 92:72. Staðan í hálfleik var 42:33 Haukum í hag og Hafnarfjarðarliðið hélt all öruggum undirtökum í seinni hálfleiknum. Snæfell er áfram á botninum ásamt KR með 4 stig.

Bríet Sif Hinriksdóttir skoraði 20 stig fyrir Hauka og Alyesha Lovett 17 en Emese Vida skoraði 20 stig fyrir Snæfell og tók 16 fráköst. Tinna Guðrún Alexandersdóttir og Haiden Palmer voru með 17 stig hvor.

Fjölnir vann í Smáranum

Fjölnir er nú með 22 stig í fjórða sætinu eftir sigur á Breiðabliki í Smáranum, 79:69. Staðan í hálfleik var 41:29 fyrir Grafarvogsliðið sem hélt Blikum í allþægilegri fjarlægð í seinni hálfleiknum. Breiðablik er með 10 stig í sjötta sætinu og í lítilli fallhættu þrátt fyrir tapið.

Ariel Hearn skoraði 25 stig fyrir Fjölni og tók 18 fráköst og Lina Pikciuté var með 20 stig og 13 fráköst. Jessica Kay Lorea skoraði 19 stig fyrir Blika, Iva Georgiva 17 og Isabella Ósk Sigurðardóttir  tók 14 fráköst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert