Valskonur eru einar á toppi úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik, Dominos-deildarinnar, eftir yfirburðasigur á KR að Hlíðarenda í kvöld, 106:52.
Valur er þá með 26 stig þegar fimm umferðum er ólokið. Haukar og Keflavík eru með 24 stig og Fjölnir 22 stig en nær öruggt er að þessi fjögur lið leiki til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í vor. KR situr sem fyrr á botninum ásamt Snæfelli með 4 stig og liðin eiga fram undan einvígi um hvort þeirra heldur sér í deildinni.
Valskonur stungu af strax í fyrsta leikhluta. Staðan var 38:12 að honum loknum og síðan 58:21 í hálfleik. Munurinn fór síðan yfir fimmtíu stigin skömmu fyrir leikslok.
Dagbjört Dögg Karlsdóttir skoraði 20 stig fyrir Val og Hallveig Jónsdóttir 16 og þá tók Ásta Júlía Grímsdóttir 12 fráköst.
Hjá KR var Annika Holopainen í sérflokki en hún skoraði 23 stig.