Snýr aftur í Vesturbæinn

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson í leik með KR árið 2017.
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson í leik með KR árið 2017. Árni Sæberg

Skotbakvörðurinn Þórir Guðmundur Þorbjarnarson er genginn í raðir uppeldisfélags síns KR að nýju. Spilar hann með liðinu út þetta leiktímabil.

Þórir, sem er 22 ára gamall, hefur undanfarin fjögur ár spilað með Nebraska Cornhuskers, liði Nebraska-Lincoln-háskólans, við afar góðan orðstír í 1. deild NCAA-háskóladeildarinnar í Bandaríkjunum og er nú útskrifaður frá háskólanum.

Ljóst er að um mikinn liðstyrk er að ræða fyrir KR á lokaspretti Domino‘s-deildarinnar í körfuknattleik, þar sem liðið freistar þess að vinna sinn sjöunda Íslandsmeistaratitil í röð.

Þórir byrjaði ungur að árum að spila með KR og hefur unnið þrjá Íslandsmeistaratitla og tvo bikarmeistaratitla.

Þá var hann valinn besti ungi leikmaður Domino‘s-deildarinnar árið 2017, áður en hann hélt til Nebraska.

Hann verður væntanlega í leikmannahópi KR sem mætir Þór Þorlákshöfn í Þorlákshöfn í hörkuleik í deildinni í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert