Njarðvík vann mikilvægan og langþráðan 94:91-sigur á útivelli gegn nágrönnum sínum í Grindavík er liðin mættust í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Dominos-deildinni, í kvöld. Leikurinn var sá fyrsti hjá liðunum síðan keppni gat hafist á ný eftir hlé vegna kórónuveirunnar.
Njarðvíkingar hafa verið í bullandi fallbaráttu í allan vetur og voru aðeins búnir að vinna tvo af síðustu 11 leikjum sínum. Einn þeirra var þó gegn Grindavík í Njarðtaksgryfjunni í janúar en Grindvíkingar, sem í kvöld voru heimamenn, voru komnir í 11 stiga forystu eftir fyrsta leikhluta, 29:18, og þeir voru yfir í hálfleik, 49:42.
Áhlaup Njarðvíkinga eftir hlé átti hins vegar eftir að hleypa mikilli spennu í leikinn og voru gestirnir með forystu um tíma í þriðja leikhluta en að honum loknum var staðan þó 65:61, Grindavík í vil. Lokamínúturnar voru svo æsispennandi en aftur tókst Njarðvík að snúa taflinu sér í vil og hafa forystu á endasprettinum.
Maciek Stanislav var stigahæstur gestanna með 26 stig en Kyle Johnson kom næstur með 17. Þá tók Antonio Hester níu fráköst. Dagur Kár Jónsson var með 22 stig fyrir Grindavík, sex stoðsendingar og þrjú fráköst.
Með sigrinum lyfta Njarðvíkingar sér aðeins frá botnsætunum, eru nú með 12 stig í 10. sæti, fjórum á undan Hetti. Grindavík er áfram í 8. sæti með 16 stig.
HS Orku-höllin, Dominosdeild karla, 23. apríl 2021.
Gangur leiksins:: 4:6, 13:13, 21:15, 29:18, 36:21, 41:27, 45:38, 49:42, 54:45, 57:50, 59:55, 65:61, 71:69, 75:79, 84:85, 91:94.
Grindavík: Dagur Kár Jónsson 22/6 stoðsendingar, Joonas Jarvelainen 21/8 fráköst/6 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 14/6 fráköst/6 stoðsendingar, Amenhotep Kazembe Abif 13/4 fráköst, Kristinn Pálsson 11/8 fráköst, Marshall Lance Nelson 8/4 fráköst/6 stoðsendingar, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 2/6 fráköst.
Fráköst: 28 í vörn, 11 í sókn.
Njarðvík: Maciek Stanislav Baginski 26, Kyle Johnson 17/8 fráköst, Mario Matasovic 15/6 fráköst/6 stoðsendingar, Antonio Hester 11/9 fráköst, Logi Gunnarsson 11, Rodney Glasgow Jr. 8/8 stoðsendingar, Ólafur Helgi Jónsson 6/4 fráköst.
Fráköst: 25 í vörn, 4 í sókn.
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Gunnlaugur Briem.
Áhorfendur: 50