Breiðablik stendur áfram best að vígi á toppi 1. deildar karla í körfuknattleik eftir 39 stiga sigur á útivelli í gærkvöld en þá var leikin fyrsta umferð deildarinnar eftir mánaðar hlé.
Blikar fóru austur á Flúðir og sigruðu Hrunamenn með yfirburðum, 108:69. Hrunamenn sendu erlendu leikmennina sína heim í hléinu og voru fyrir vikið auðveld bráð fyrir toppliðið.
Samuel Prescott skoraði 19 stig fyrir Blika, Snorri Vignisson 16 og þeir Rubiera Rapaso og Gabríel Sindri Möller 14 stig hvor. Hjá Hrunamönnum var Yngvi Freyr Óskarsson atkvæðamestur með 17 stig og 11 fráköst.
Hamar er nú eina liðið sem ógnar Breiðabliki verulega í slagnum um efsta sætið sem veitir beinan keppnisrétt í úrvalsdeildinni. Hamar vann Fjölni í Hveragerði, 102:94.
Jose Medina skoraði 27 stig fyrir Hamar, Ruud Lutterman 24 og Ragnar Jósef Ragnarsson 18. Matthew Carr skoraði 35 stig fyrir Fjölni og Viktor Máni Steffensen 19.
Möguleikar Skallagríms á efsta sætinu eru nánast úr sögunni eftir tap fyrir Vestra á Ísafirði, 102:85, en Vestri á fyrir vikið smá von enn um að komast í umspilið.
Ken-Jah Bosley skoraði 28 stig fyrir Vestra, Nemanja Knezevic skoraði 23 stig stig og tók 14 fráköst og Marko Dmitrovic skoraði 18 stig. Nebojsa Knezevic, fyrrverandi leikmaður Vestra, skoraði 22 stig fyrir Skallagrím og Kristján Örn Ómarsson 15.
Loks vann Álftanes útisigur á Selfossi, 97:87, og er áfram í toppslagnum. Cedrik Bowen skoraði 32 stig fyrir Álftanes og Róbert Sigurðsson 20 en Kennedy Aigbogun skoraði 25 stig fyrir Selfoss og Kristijan Vladovic 18.
Breiðablik er með 20 stig á toppnum, Hamar 18, Álftanes 18, Sindri 16 og Skallagrímur 16 stig. Liðin eiga þrjá leiki eftir, nema Álftanes sem á tvo leiki eftir. Vestri er síðan með 14 stig og á tvo leiki eftir.
Fjölnir, Hrunamenn og Selfoss sitja síðan í þremur neðstu sætunum með sex stig hvert.