Hansel Atencia reyndist hetja Hauka þegar liðið heimsótti KR í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Dominos-deildinni, í DHL-höllina í Vesturbæ í kvöld.
Leiknum lauk með þriggja stiga sigri Hauka, 72:69, en Atencia tryggði Haukum sigur með flautukörfu eftir að hafa stolið boltanum.
Mikið jafnræði var með liðunum allan leikinn en staðan var jöfn í hálfleik, 40:40. Haukar leiddu með fimm stigum fyrir fjórða leikhluta en KR-ingar voru þremur stigum yfir þegar rúmlega mínúta var til leiksloka.
Jalen Jackson var stigahæstur Hauka með 20 stig og níu fráköst og þá skoraði títtnefndur Atencia 17 stig.
Brandon Nazione var stigahæstur KR-inga með 17 stig og Tyler Sabin skoraði 13 stig.
Haukar fara með sigrinum upp í ellefta sæti deildarinnar í 10 stig og eru nú aðeins tveimur stigum frá fallsæti þegar fjórir leikir eru eftir af tímabilinu en Höttur er nú í neðsta sætinu með átta stig og Njarðvíkingar eru í tíunda sætinu með 12 stig.
KR-ingar eru í fjórða sætinu með 20 stig.
Gangur leiksins:: 9:4, 9:12, 14:17, 21:19, 28:25, 33:29, 35:33, 40:40, 43:47, 49:53, 49:53, 51:56, 57:56, 62:60, 67:64, 69:72.
KR: Brandon Joseph Nazione 17/6 fráköst, Tyler Sabin 13, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 10/4 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 8, Matthías Orri Sigurðarson 6/6 fráköst, Zarko Jukic 5/5 fráköst, Helgi Már Magnússon 5, Jakob Örn Sigurðarson 3, Veigar Áki Hlynsson 2.
Fráköst: 28 í vörn, 3 í sókn.
Haukar: Jalen Patrick Jackson 20/9 fráköst, Hansel Giovanny Atencia Suarez 17, Pablo Cesar Bertone 13/7 fráköst, Brian Edward Fitzpatrick 8/8 fráköst, Breki Gylfason 7/7 fráköst, Hilmar Pétursson 5/4 fráköst, Austin Magnus Bracey 2.
Fráköst: 29 í vörn, 10 í sókn.
Dómarar: Eggert Þór Aðalsteinsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Johann Gudmundsson.
Áhorfendur: 67