„Engin vörn til staðar“

Borce Ilievski, þjálfari ÍR.
Borce Ilievski, þjálfari ÍR. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

„Þetta var góður leikur, góður fyrir áhorfendur. Ég tel að þeir sem horfðu á þennan leik hafi notið hans en út frá taktísku sjónarhorni skoruðu bæði lið mjög mikið af stigum þannig að það var í raun engin vörn til staðar.“

Þetta sagði Borce Ilievski, þjálfari ÍR, í samtali við mbl.is eftir að lið hans tapaði 109:116 gegn Keflavík í framlengdum leik í Hertz-hellinum í Seljaskóla í Domino‘s-deild karla í körfuknattleik í kvöld.

Hann sagði að fjöldi pása í tengslum við kórónuveirufaraldurinn geri liðum erfitt fyrir í undirbúningi fyrir leiki. Með auknum pásum líður skemmri tími á milli leikja.

„Við erum að stoppa mikið. Á þessu ári æfum við, svo æfum við ekki þannig að ég get ekki búist við því af leikmönnum að fara djúpt í taktíkina. Þeir gerðu mikið af mistökum, ég veit það. Við höfum einfaldlega ekki tíma til þess að lagfæra mistök, við spilum bara og spilum.“

ÍR er í 9. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Þór Akureyri, sem er í 8. sæti, síðasta sætinu sem gefur farseðil í úrslitakeppnina. „Því miður er það þannig því við þurfum á sigri að halda eins fljótt og mögulegt er til þess að komast í úrslitakeppnina. Vonandi tekst það í næstu leikjum.

Þessi leikur þarf að vera nokkurs konar upphafspunktur í átt að því markmiði. Við getum spilað vel gegn öllum liðum á landinu. Keflavík er besta lið landsins,“ sagði Borce.

Get ekki kvartað neitt

Hann sagði að með frammistöðu sem þessari, gegn besta liði landsins, sé mikilvægt að taka það jákvæða úr leiknum, til að mynda góðan sóknarleik ÍR-liðsins.

„Ég veit að leikmenn mínir eru vonsviknir því ég veit að þeir gáfu allt í þennan leik. Það voru mörg mistök gerð í leiknum en ég get ekki kennt þeim um eða kvartað neitt þar sem ég veit að þeir lögðu sig alla fram til þess að vinna þennan leik. En í kvöld var Keflavík aðeins betra lið en við, þeir eru með meiri reynslu og náðu þessari forystu.“

Borce bar þennan leik saman við leikinn gegn Haukum síðastliðinn fimmtudag, þar sem hann var ósáttur við frammistöðu ÍR-inga í 94:104 tapi.

„Við sýndum svo sannarlega mikinn karakter. Við getum barist og verið orkumiklir. Í síðasta leik gegn Haukum varð ég fyrir miklum vonbrigðum og ég var harður við leikmennina í búningsklefanum því það vantaði orku og baráttu. En í kvöld get ég ekki kvartað yfir því, ég veit að þeir gáfu allt sitt í leikinn,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert