Keflavík vann eftir framlengingu í Breiðholtinu

Litháinn öflugi Dominykas Milka sækir að körfu ÍR í kvöld.
Litháinn öflugi Dominykas Milka sækir að körfu ÍR í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Keflavík vann sterkan 116:109 útisigur gegn ÍR í Hertz-hellinum í Seljaskóla í 18. umferð Domino’s-deildar karla í körfuknattleik í kvöld og þurfti til þess framlengingu. Leikurinn var æsispennandi og hin besta skemmtun.

Heimamenn í ÍR byrjuðu leikinn af miklum krafti og skoruðu fyrstu sjö stig leiksins. Keflvíkingar voru þó fljótir að vakna og skoruðu næstu níu og staðan þar með orðin 9:7. Eftir það hertu þeir enn frekar tökin og komust mest 11 stigum yfir, 21:10, í fyrsta leikhluta. Að loknum fyrsta leikhluta voru Keflvíkingar með níu stiga forystu, 28:19.

Í öðrum leikhluta virtust Keflvíkingar ætla að taka leikinn alfarið yfir og náðu mest 15 stiga forystu, 41:26. Borce Ilievski þjálfari ÍR-inga tók þá leikhlé og það virkaði sem vítamínsprauta fyrir heimamenn því þeir skoruðu næstu átta stig og löguðu stöðuna þannig talsvert, 41:34.

ÍR-ingar gáfu bara í og færðust alltaf nær og nær sem endaði með því að Zvonko Buljan og náðu að minnka muninn niður í tvö stig, 57:55. Zvonko Buljan setti niður tveggja stiga körfu alveg undir lok leikhlutans og virtist þar með hafa jafnað metin en seint í leikhléi voru stigin tvö réttilega tekin af ÍR-ingum, enda var leiktíminn runninn út þegar hann skoraði.

Það breytti því ekki að endurkoman hjá ÍR var afar sterk í leikhlutanum og hálfleikstölur því 57:55, Keflvíkingum í vil.

ÍR-ingar mættu svo trítilóðir til síðari hálfleiks og skoruðu fyrstu 13 stig hálfleiksins og komu sér þannig í 11 stiga forystu, 57:68. Keflvíkingar svöruðu með næstu átta stigum og minnkuðu muninn í þrjú stig, 65:68.

Eftir það tóku gestirnir í Keflavík aftur yfir leikinn og voru búnir að snúa taflinu við sér í vil þegar þriðji leikhlutinn var úti og komnir með níu stiga forystu, 84:75.

Í fjórða og síðasta leikhluta var mikið jafnræði með liðunum framan af og skiptust þau á að skora. Eftir að hafa tekið leikhlé um miðjan leikhlutann settu ÍR-ingar pressu á Keflvíkingar og minnkuðu muninn niður í fjögur stig, 94:90.

ÍR-ingar voru ekki hættir og náði Danero Thomas að jafna í 100:100 þegar níu sekúndubrot voru eftir á leikklukkunni.

Því þurfti að framlengja og þar reyndust Keflvíkingar hlutskarpari og unnu á endanum góðan 116:109 sigur.

Í liði Keflvíkinga vorur þeir Deane Williams, Calvin Burks Jr. og Dominykas Milka allir drjúgir í stigaskorun. Williams var stigahæstur með 34 stig og var með tvöfalda tvennu enda tók hann einnig 16 fráköst. Burks Jr. gerði 27  stig og Milka náði sömuleiðis tvöfaldri tvennu, gerði 24 stig og tók 13 fráköst.

ÍR-ingar dreifðu stigunum sömuleiðis vel á milli sín og voru þeir Buljan og Evan Singletary stigahæstir Breiðhyltinga. Buljan gerði 34 stig og Singletary 22 stig.

ÍR - Keflavík 109:116

Hertz Hellirinn - Seljaskóli, Dominos deild karla, 26. apríl 2021.

Gangur leiksins:: 7:2, 9:13, 10:21, 19:28, 26:38, 36:43, 46:51, 55:57, 66:57, 69:67, 72:72, 75:84, 82:91, 85:94, 90:96, 100:100, 105:108, 109:116.

ÍR: Zvonko Buljan 34/6 fráköst/8 stoðsendingar, Evan Christopher Singletary 22/6 stoðsendingar, Collin Anthony Pryor 18/5 fráköst, Danero Thomas 17/6 fráköst, Everage Lee Richardson 14/6 stoðsendingar, Sigvaldi Eggertsson 4.

Fráköst: 15 í vörn, 8 í sókn.

Keflavík: Deane Williams 34/16 fráköst, Calvin Burks Jr. 31/7 fráköst, Dominykas Milka 24/13 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 14/4 fráköst/8 stoðsendingar, Valur Orri Valsson 6/4 fráköst/6 stoðsendingar, Arnór Sveinsson 4, Ágúst Orrason 3.

Fráköst: 29 í vörn, 16 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Jakob Árni Ísleifsson, Sigurbaldur Frimannsson.

ÍR 109:116 Keflavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert