Svolítið flatir en fínir sóknarlega

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur.
Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, var ánægður með 116:109 sigur liðsins gegn ÍR í Domino‘s-deildinni í körfuknattleik karla í kvöld en var þó ekki ánægður með varnarleik liðsins í leiknum.

„Ég er mjög sáttur við sigurinn. Sóknarlega vorum við fínir, við skorum einhver 116 stig, 100 stig í venjulegum leiktíma. Varnarlega vorum við bara alls ekki tilbúnir, vorum rosalega hægir á fótunum og vantaði bara orku,“ sagði Hjalti Þór í samtali við mbl.is eftir leik.

Leikurinn var afar kaflaskiptur og nokkrum sinnum virtist sem Keflavík ætlaði að sigla fram úr ÍR-ingunum en alltaf komu þeir til baka og náðu um skeið 11 stiga forystu. Þá var komið að Keflavík að snúa taflinu við sér í vil.

„Það er alltaf hröngl í körfubolta og það er yfirleitt ekki þannig að það er skorað til skiptis, það koma frekar svona „rönn“. En ég held líka að menn hafi kannski verið svolítið þreyttir eftir Stjörnuleikinn og menn kannski svolítið hátt uppi, það getur verið. Við vorum bara svolítið flatir í dag en sóknarlega vorum við fínir,“ sagði hann, en Keflavík vann góðan 100:81 sigur gegn Stjörnunni á föstudaginn.

Keflavík þarf núna aðeins einn sigur úr síðustu fjórum leikjum Domino's-deildarinnar til þess að tryggja sér deildarmeistaratitilinn. Spurður hvort liðið stefni á að tryggja sér titilinn gegn KR næstkomandi föstudag sagði Hjalti Þór:

„Jú jú við förum í alla leiki til þess að sigra en við erum aðallega að hugsa um úrslitakeppnina. Við erum að undirbúa okkur fyrir hana og viljum vera að toppa á réttum tíma. Þetta var svolítið bakslag frá leikjunum sem við höfum verið í en að öðru leyti höfum við verið að spila þrælvel. Við þurfum aðeins að kíkja á þennan leik, það er klárt.

Svo þurfum við að passa að orkustigið sé í lagi. Líka núna á milli leikja þurfa leikmenn að ná góðri endurheimt. Menn hafa kannski ekki hugsað nógu vel um sig, það getur verið, ég veit það ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert