Karlalandslið Íslands í körfuknattleik verður í þriðja og neðsta styrkleikaflokki á morgun þegar dregið verður til 2. umferðar í forkeppni heimsmeistaramótsins 2023.
Tólf þjóðir leika þá í fjórum riðlum í ágústmánuði og átta þeirra, tvö úr hverjum riðli, komast í sjálfa undankeppnina í Evrópu þar sem 32 þjóðir bítast um að komast í lokakeppni HM.
Í tveimur efri styrkleikaflokkunum eru átta þjóðir sem ekki komust í lokakeppni EM 2022. Í fyrsta flokki eru Svartfjallaland, Lettland, Norður-Makedónía og Svíþjóð, en í öðrum flokki eru Rúmenía, Danmörk, Austurríki og Sviss. Ísland verður því riðli með tveimur af þessum þjóðum, einni úr hvorum flokki.
Í þriðja og síðasta flokknum eru svo þær fjórar þjóðir sem komust áfram úr fyrstu umferð forkeppninnar en það eru Ísland, Hvíta-Rússland, Portúgal og Slóvakía.