„Var orðinn vel þungur andlega“

Elvar Már Friðriksson í leik í Litháen.
Elvar Már Friðriksson í leik í Litháen. Ljósmynd/Sveinn Helgason

Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson átti magnaðan leik í litháísku úrvalsdeildinni í körfuknattleik á dögunum þegar hann brenndi ekki af skoti og sýndi næstbestu frammistöðu í deildinni á þessari öld samkvæmt þeim viðmiðum sem notast er við í íþróttinni. 

Mbl.is sló á þráðinn til Elvars og spurði út í þessa frammistöðu og gott gengi hans að undanförnu. Var leikurinn gegn Pieno Zvaigzdes einn af þessum dögum þar sem allt gengur upp?

„Það mætti eiginlega segja það. Ég brenndi ekki af skoti og ég held að það gerist ekki mikið betra fyrir mann en það. Þetta gerðist bara einhvern veginn í flæði leiksins og var jafnt og þétt í gegnum leikinn. Þess vegna fannst mér frammistaðan ekkert fáránlega áberandi. En þetta var skilvirkt og þessi frammistaða skilaði sér alla vega vel á tölfræðiblaði. Mér skilst að framlagstalan sé sú næsthæsta í deildinni frá árinu 2000,“ sagði Elvar en hann fékk framlagstöluna 51 fyrir frammistöðu sína í leiknum sem er sjaldgæft í körfuboltanum. Inni í þeirri tölu voru 33 stig skoruð, 12 stoðsendingar á samherjana og náði boltanum sex sinnum af andstæðingunum.

Elvar hefur átt fleiri góða leiki og hann hefur gefið flestar stoðsendingar í deildinni að meðaltali sem af er deildakeppninnar. Spurður um hvort hann hafi nokkurn tíma spilað betur á ferlinum segir Elvar svo ekki vera.

„Ég held að það sé alveg klárt því ég hef spilað mjög vel í vetur og deildin er hátt metin í Evrópu. Þetta er stærsta svið sem ég hef verið á og mér hefur gengið mjög vel. Ég er því virkilega ánægður með mína frammistöðu og tel mig hafa vaxið mjög sem leikmaður. Megnið af sóknum liðsins fer í gegnum mig og það er ekki verra. Leikstílinn er aðeins frábrugðinn því sem ég var vanur og fyrir vikið var smá bras á mér í byrjun. Eftir að ég náði tökum á því hefur gengið mjög vel,“ sagði Elvar og þar á hann við að í Litháen eru margir hávaxnir og þungir leikmenn undir körfunni. Auk þess segir hann liðin spila mjög kerfisbundið og leikaðferðir séu afar vel skipulagðar.“

Íslendingurinn vekur athygli

Áhugi á körfuknattleik er rótgróinn í Litháen en í gömlu Sovétríkjunum var ástríðan fyrir íþróttinni einna mest í Litháen. Töluvert hefur því verið fjallað um frammistöðu Íslendingsins á fyrsta ári í Litháen.

 „Í Litháen er fylgst rosalega vel með körfubolta og það hefur vakið athygli hvernig mér hefur gengið. Þeir hafa fjallað mikið um það en þetta er þjóðaríþróttin hérna. Ég held að þar spili inn í að heimamenn bjuggust ekki við því fyrir fram að ég yrði svona áberandi. Eftir leikinn gegn Pieno Zvaigzdes fór ég í stórt viðtal við stærsta körfuboltamiðilinn sem dæmi. Allir leikir í deildinni eru sýndir á netinu og í hverri umferð eru einn eða tveir leikir í hverri umferð í ríkissjónvarpinu. Leikurinn gegn Pieno Zvaigzdes var til dæmis í beinni útsendingu,“ sagði Elvar sem einbeitir sér að því að standa sig með liði sínu Siauliai en blaðamaður veltir því fyrir sér hvort síminn sé ekki farinn að hringja ört hjá umboðsmanni Elvars?

„Ég held að hann hafi alla vega fengið einhverjar fyrirspurnir. Ég bíð spenntur eftir því að sjá hvað gerist í sumar. Það hlýtur að koma eitthvað spennandi inn á borð til mín en ég ætla ekki að fara fram úr sjálfum mér. Hér er töluvert eftir af tímabilinu og sérstaklega fyrir liðin sem komast í fjögurra liða úrslit. Ég geri eins vel og ég get og tek stöðuna eftir það. Ég gerði tveggja ára samning en hægt er að kaupa mig út á milli tímabila ef áhugi er fyrir því.“

Elvar Már Friðriksson fer yfir málin með þjálfaranum reynda.
Elvar Már Friðriksson fer yfir málin með þjálfaranum reynda. Ljósmynd/Sveinn Helgason

Liði Siauliai gekk illa í upphafi tímabilsins. Mun verr en búist hafði verið við og um tíma virtist liðið líklegt til að falla. En þá varð mikil breyting á og eftir marga góða sigra er liðið í baráttu um að komast í átta liða úrslitakeppnina.

„Við vorum óheppnir með meiðsli til að byrja með. Við vorum með bandarískan leikmann sem sleit krossband. Þá breyttist holningin á liðinu og tók okkur 10-15 leiki að mynda nýtt lið. Meðal annars út af fleiri breytingum sem urðu á leikmannahópnum. Við fengum fjóra nýja menn og fyrirliðinn óskaði eftir því að fara frá félaginu og leikur nú með öðru liði hér í Litháen. Tveir Litháar komu til okkar og einn Letti. Til að byrja með voru tveir Bandaríkjamenn í hópnum en eru báðir farnir. Þetta snall loksins saman hjá okkur þegar leið á tímabilið. Nú er komin allt önnur mynd á þetta og meiri liðsbragur. Menn hafa fengið aukið sjálfstraust. Meðal annars vegna þess að hlutverkaskipanin var svolítið óskýr til að byrja með.“

Hékk einn í íbúðinni í marga mánuði

Antanas Sireika þjálfari Siauliai er þrautreyndur í faginu en hann er 64 ára gamall. Sireika er þekktur í Litháen eftir að hafa verið landsliðsþjálfari Litháa með góðum árangri í fyrsta áratug aldarinnar. 

„Við erum farnir að sklja aðeins betur hverju hann er að leitast eftir. Hann kann leikinn mjög vel þótt manni finnist þjálfaraaðferðirnar vera gamaldags og ólíkar því sem maður hefur áður kynnst. Þetta var svolítið erfitt í byrjun því það tók nokkra mánuði fyrir leikmenn að læra inn á þjálfarann. Hann er smámunasamur varðandi ýmsar áherslur. En maður sér að þetta er hörkuþjálfari enda voru Litháar Evrópumeistarar með hann sem landsliðsþjálfara og léku um verðlaun á Ólympíuleikum. Mín samskipti við hann hafa verið mjög góð en takmarkaðari en þau gætu verið því hann talar ekki mikla ensku. Hann hefur mikla trú á mér og hefur gefið mér frjálsræði. Ég fæ því að spila minn leik. Okkar samband hefur orðið betra og betra enda er það yfirleitt þannig að þegar liðið vinnur leiki þá verður allt betra. „Það var mjög þungt yfir öllu hérna til að byrja með en þegar við fórum að vinna leiki þá birti yfir mönnum,“ sagði Elvar og vegna heimsfaraldursins hefur nánast ekkert kynnst landi og þjóð ef frá er talið það sem snýr að körfuboltanum. 

Elvar í landsleik gegn Portúgal í Laugardalshöllinni.
Elvar í landsleik gegn Portúgal í Laugardalshöllinni. mbl.is/Árni Sæberg

„Veturinn hefur verið kaldur og erfiður og hér var allt lokað nema matvörubúðir og apótek frá því í nóvember. Fyrir nokkrum dögum var margt opnað aftur og leyfðir verða 150 áhorfendur á leikjum. Ég hef liggur við ekki upplifað neitt hérna nema íþróttahúsið og íbúðina sem ég bý í. Það er frekar sorglegt. Ég var með fjölskylduna hérna til að byrja með en svo var nánast ekkert fyrir þau að gera og þau fóru heim í vetur. Ég hef verið meira eða minna einn en þau eru nýlega komin út til mín aftur. Þetta var orðið mjög erfitt um tíma. Ég get alveg viðurkennt það. Maður var orðinn vel þungur andlega og það var erfitt að finna gleðina. Ég á ungan son og það var ekki auðvelt að vera fjarri honum í langan tíma. Ég held að maður hafi lært að meta hlutina upp á nýtt eftir þennan vetur,“ sagði Elvar Már í samtali við mbl.is.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert