Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik mætir Svartfjallalandi og Danmörku í annarri umferð forkeppni heimsmeistaramóts karla.
Dregið var í riðla fyrir 2. umferð í Berlín í dag en þar leika tólf þjóðir í fjórum þriggja liða riðlum og tvö efstu liðin í hverjum þeirra komast áfram í sjálfa undankeppni HM í Evrópu þar sem 32 þjóðir leika um sæti í lokakeppninni sem haldin er árið 2023 á Filippseyjum, í Japan og Indónesíu.
Önnur umferð verður leikin í ágústmánuði en Ísland komst áfram úr 1. umferð forkeppninnar eftir að hafa unnið sinn riðil þar sem mótherjarnir voru Slóvakía, Lúxemborg og Kósóvó.